„Við vissum frá upphafi að spjallmennið okkar ætti að vera köttur. Það er nefnilega eitthvað óútskýranlegt aðdráttarafl á milli Póstsins og kattardýra. Þeir elska okkur og við elskum þá,“ segir Lilja Gísladóttir þjónustustjóri þjónustudeildar Póstsins á Akureyri aðspurð um það, hvers vegna Pósturinn ákvað að búa til snjallkisa í staðinn fyrir snjallmenni til að þjónusta viðskiptavini.
„Svo þekkja auðvitað allir tvíeykið ódauðlega Póstinn Pál og köttinn Njál,“ bætir Lilja við.
Njáll enn í þjálfun en stendur sig vel
Lilja er fædd í Reykjavík en hefur búið á Akureyri í 45 ár.
„Svo ég held að ég hljóti að vera orðin fullgildur Akureyringur.“

Lilja er í sambúð og á eina dóttur, stjúpson og stjúpdóttur. Hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og fyrir nokkrum árum diplómanámi í mannauðsstjórnun frá Opna háskólanum í Reykjavík.
Sem þjónustustjóri segir Lilja starfið sitt felast í daglegum rekstri þjónustudeildar póstsins. Sem einnig þýðir að hún starfar náið með öðrum deildum innan fyrirtækisins.
Lilja segir teymið í þjónustuverinu afar samheldið þar sem allir leggja áherslu á að veita sem besta þjónustu.
En mikilvægt atriði er einnig viðhorfið sem teymið ber fyrir sjálfu sér:
„Eins og við segjum sjálf, við erum LIÐ. Við berum virðingu hvert fyrir öðru og veitum stuðning.“
Snjallkisinn Njáll var kynntur til sögunnar fyrir viðskiptavini Póstsins fyrir skömmu. Okkur lék forvitni á að heyra meira um verkefnið.

„Pósturinn hefur verið á spennandi stafrænni vegferð undanfarin misseri og Njáll er liður í þeirri þróun. Fyrir rúmu ári síðan hófum við ferlið við að þróa og taka í notkun spjallforrit sem væri opið viðskiptavinum okkar allan sólarhringinn,“ segir Lilja.
Til að byrja með var markmiðið að spjallforritið gæti leyst einföldustu málin. Eins og fólk er farið að þekkja víða á vefsíðum.
Þau mál sem spjallforritið gæti ekki leyst, kæmu síðan inn á borð þjónustufulltrúa.
„Þegar kom svo að því að persónugera þessa nýju lausn vorum við ekki lengi að komast að þeirri niðurstöðu að hér væri um kött að ræða. Njáll er hugsaður sem skemmtilegur kisi með svörin á reiðum höndum, er skýr og leysir málin.“
Hlutverk Njáls er að gefa góð ráð og leiðbeina viðskiptavinum Póstsins, til dæmis á vefsíðu félagsins.
Og Lilja segir snjallkisann standa sig vel.
Njáll var innleiddur og settur í þjálfun í nóvember 2021. Fyrst um sinn þurfti hann auðvitað að læra margt, en í dag er hann orðinn alveg ótrúlega snjall. Hann er samt enn að læra og verður bara klárari með hverjum deginum.“
En hvaðan kom hugmyndin að því að vera með snjallkisa frekar en snjallmenni?
„Við ákváðum að leita ráða hjá bæði starfsfólkinu okkar og viðskiptavinum og skelltum í hugmyndaleit á samfélagsmiðlum. Þar sköpuðust miklar og heitar umræður, en niðurstaðan var skýr,flestir vildu sjá köttinn Njál verða að veruleika.“