Til þess að finna listann fyrir febrúar var leitað til plötusnúða bæjarins og helstu lista tónlistarpressunnar skoðaðir.
„Sofia Kourtesis á topplagið í þetta skiptið. Í laginu Estacion Esperanza er hún að vinna snilldarlega með lag frá Manu Chao,“ segir Helgi Már Bjarnason, einn umsjónarmanna PartyZone.
Nýr þáttur af PartyZone fer í loftið hér á Vísi á föstudögum og er hann síðan aðgengilegur á helstu hlaðvarpsveitum og á Mixcloud-rás þáttarins.
2022 verður kröftugt dansár
„Þetta er trylltur listi til að starta dansárinu. Það er svo augljóst að fólk þráir að komast óheft og grímulaust á dansgólfið og dansa eins og vindurinn. Það er hægt að heyra það á tónlistinni sem verið er að gefa út. Við spáum því að dansgólfin muni fyllast með tryllingi nú í ár og það af fólki á öllum aldri enda má ekki gleyma því að danskynslóðin er að detta í fimmtugt. Það er eitthvað að fara að gerast næstu mánuði sem verður lengi í minnum haft.“
Kiasmos í fimmta sæti
Á listanum kennir margra grasa. „Röyksopp eru mættir aftur með geggjað nýtt lag með söngkonunni Alison Goldfrapp. Mjög töff endurhljóðblöndun Masters at Work á Moonshine, þeirra eigin klassík, er sömuleiðis alger gargandi snilld. Honey Dijon, Booka Shade, Disclosure eru sömuleiðis að gera gott mót á lista mánaðrins. Allskonar klúbba stöff og Teknó þarna sömuleiðis. Að lokum má nefna að Ólafur Arnalds og félagar í KIASMOS eru í fimmta sætinu með glænýtt remix," segir Helgi Már.
Klassík frá Daft Punk
PartyZone listaþátturinn hefst alltaf með múmíu kvöldsins og reka sumir eflaust upp stór augu yfir aldrinum á henni.
„Topplagið á PartyZone listanum í febrúar 1997 var þessi rosalegi slagari frá Daft Punk, Burnin, sem átti eftir að bomba dansgólfin næstu árin,“ segir Helgi Már.