Þessa dagana vinnur Kristín meðal annars að því að samstarf Rauða krossins við aðra hagaðila verði klárað, vegna reksturs farsóttarhúsa.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er nú frekar mikill morgunhani, má segja A plús, en er algjör draugur þegar líða tekur á kvöldið og sofna frekar snemma.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri er að læðast fram úr um hálfsjö leytið. Tek vítamín og selalýsið, laga einn kaffibolla, les blöðin og fréttir á netinu. Morgunþátturinn á Rás 1 malar undir. Best er ef ég næ að prjóna í svolitla stund, en ég er stoltur félagi í Hinu íslenska prjónafélagi (HÍP).“
Hver var uppáhalds karakterinn þinn í Dallas þáttunum?
Sue Ellen var áhugaverð. Breysk kona sem átti sögu.
Hún hefði haft gott af því að fá heimsóknarvin frá Rauða krossinum.
Jarðbundinn sjálfboðaliða með hlýjuna að vopni.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Fjölbreytt verkefni Rauða krossins tryggja það, að það er alla daga í mjög mörg og skemmtileg horn að líta. Við erum alla daga að vinna að betra samfélagi hér á Íslandi í samvinnu við almenning og stjórnvöld og erum í mörgum krefjandi og spennandi verkefnum hér heima og sömuleiðis utanlands.
Þessa dagana erum við að undirbúa lúkningu á samstarfi okkar og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur farsóttarhúsanna, sem hefur verið einstaklega gott. Örstutt þriggja mánaða viðbragð sem teygðist yfir á tvö löng Covid ár.
Við höfum sinnt talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem eru þá hælisleitendur, síðastliðin sjö ár.
Þessa dagana bíðum við spennt eftir endurteknu útboði dómsmálaráðuneytis um þá þjónustu og búumst við góðri niðurstöðu og áframhaldandi samvinnu við stjórnvöld, enda hefur gífurleg þekking og reynsla skapast hjá öflugum talsmannahópi verkefnisins, starfsfólki sem sinnir félagslegum stuðningi og virkni við hópinn, að ógleymdum á annað hundrað sjálfboðaliðum sem styðja okkar minnstu bræður og systur sem koma úr erfiðum aðstæðum.
Alþjóðlega erum við að byggja upp ýmis verkefni, þar sem hryggjarstykkið er sjálfbærni, gera fólki kleift að búa nærri heimahögum svo það þurfi ekki að leggjast á flótta ásamt því að stórauka áherslu okkar í að valdefla konur og börn og stuðla að aukinni vernd þeirra.
Nú svo styttist í 100 ára afmæli félagsins árið 2024 og undirbúningur fyrir þau tímamót hafin.
Eitt af stærstu sífelluverkefnum mínum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins er að tryggja verkefnum okkar fjármagn. Mannvinir Rauða krossins, gera okkur kleift að fjármagna okkur til að vera klár í næsta verkefni/viðbragð og erum við sannarlega alltaf tilbúin í slaginn.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Það er nú það. Hluti af því hversu vel gengur að skipuleggja daginn, vikur og mánuði er að ég á einstakt samstarfsfólk hjá Rauða krossinum, starfsfólk og sjálfboðaliða.
Ég er stöðugt að breyta leiðum til að afkasta meiru og vera skipulögð en sannarlega er alltaf hægt að gera betur!
Ég nota One Note til að gera minnislista, við nýtum Teams til að halda utan um verkefni og ýmsa hópa. Hef sem sagt lagt minnisbókum og gulum miðum. Var fræg fyrir miðana hér áður fyrr, og gjarnan gert grín að mér. Miðaframleiðslan var kölluð Zettelwirtschaft upp á þýsku en ég var í háskóla þar.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Alltaf fyrir miðnætti og helst vel fyrir þann tíma.“