Þar virðist frá miklu að segja enda eru aðalpersónur þáttanna 22 talsins og munu þættirnir fjalla um nokkrar sögur í senn. Þær munu meðal annars eiga sér stað í námum Khazad-dûm, álfaríkinu Lindon og á eyjunni Númenor, samkvæmt umfjöllun Vanity Fair.
Galadriel, álfadrottningin sem Kate Blanchet lék í þríleiknum, er meðal annarra í þessum þáttum. Hún er leikin af Morfydd Clark. Í upphafi hennar sögu mun hún vera að elta uppi þá sem þjónuðu hinum illa Melkor/Morgoth/Bauglir en fróðir lesendur vita ef til vill að Sauron sjálfur var einn þeirra.
Elrond er einnig í þáttunum enda spilar hann stóra rullu í sögu Miðgarðs.

Þættirnir hafa verið í framleiðslu hjá Amazon Studios um árabil og eiga að gerast þúsundum ára á undan Hringadróttinssögu og Hobbitanum. Svo virðist sem Amazon sé að skapa nokkrar nýjar persónur fyrir þættina en þeir fylgja í raun ekki neinni sögu sem hefur verið skrifuð áður heldur lauslegum upplýsingum sem liggja fyrir um aðra öld Miðgarðs.
Hringadróttinssaga gerist á þriðju öld Miðgarðs en þættirnir á annarri öld. Þá voru hringar Saurons og hinir hringarnir smíðaðir og hjarðir orka og drýsla herjuðu á gervallan Miðgarð, þar til álfar og menn frá Númenor tóku höndum saman og mynduðu hið svokallaða síðasta bandalag álfa og manna.
Sjá einnig: Opinbera nafn og sögusvið nýrra þátta úr söguheimi Hringadróttinssögu

Rings of Power verða frumsýndir á Prime Video þann 2. september. Í viðtali við Vanity Fair, þar sem sjá má fleiri myndir, segja þeir J.D Payne og Patrick McKay, sem gera þættina, að tónn þeirra verði ekki í anda þátta eins og Game of Thrones. Þættirnir verði líka fyrir ungmenni, þó það þurfi ef til vill að halda fyrir augun á þeim af og til.
Það má með sanni segja að margir séu spenntir fyrir þessum þáttum en eflaust eru einhverjir líka smeykir, eins og undirritaður. Amazon Studios er sagt hafa varið miklum peningum í framleiðslu þáttanna og ljóst að mikið er undir.
