Tónlist

„Ótrúlegt hvað lifandi tónlistarflutningur getur gert fyrir þreyttar sálir í skammdeginu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kvartettinn ásamt Þóru Kristínu Gunnarsdóttur píanóleikara. Tónleikar þeirra fara fram á Sigurjónssafni. 
Kvartettinn ásamt Þóru Kristínu Gunnarsdóttur píanóleikara. Tónleikar þeirra fara fram á Sigurjónssafni.  Aðsend

Tónleikarnir Með hækkandi sól - Sönglög í Sigurjónssafni fara fram á morgun, 9. febrúar, og fimmtudaginn 10. febrúar þar sem fagrir tónar munu flæða um sali safnsins.

Nýstofnaður kvartett stígur á stokk en hann skipa þau Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran, Eggert Reginn Kjartansson tenór og Unnsteinn Árnason bassi. Öll eru þau þaulreynd á sínu sviði.

Kristín Sveinsdóttir þenur raddböndin á SigurjónssafniAðsend

Hafa sungið saman frá ungum aldri

Þau byrjuðu ung að koma fram saman í Langholtskirkju kór undir stjórn Jóns Stefánssonar og síðan lá leið þeirra allra til Vínarborgar í söngnám. Ásamt því að koma reglulega fram í ýmis konar verkefnum í Vín hafa þau einnig sungið á óperusviði víðs vegar um Evrópu.

Kristín starfaði við La Scala Óperuna í Mílanó, Eggert starfaði í óperunni við Baden Wien og í Salzburg, Jóna söng nýlega við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn ásamt því að koma reglulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Unnsteinn hefur síðastliðin ár verið fastráðinn við óperuna í Innsbruck í Austurríki. Á tónleikunum spilar Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari með þeim, sem er nýkomin heim eftir nám og störf í Sviss.

„Við fjögur þekkjumst auðvitað mjög vel og það er fátt skemmtilegra en að syngja saman. Þess vegna eru tónleikarnar byggðir mikið á dúettum og kvartettum.

Eftir að við sungum yfir fyrsta kvartettinn á fyrstu æfingunni okkar saman þá, þó það sé mikil klisja að segja, ljómuðum við öll af gleði.

Það eru svona augnablik sem minna mann á hvað söngur er magnaður og þá sérstaklega samsöngur. Við vonumst til að geta glatt áhorfendur jafn mikið á tónleikunum og söngurinn gleður okkur,“ segir söngkonan Jóna G. Kolbrúnardóttir.

Hópurinn í skýjunum eftir góða æfingu.Aðsend

Tónlistin haldi áfram að hljóma sama hvað

„Það er okkur hjartans mál að tónlistin haldi áfram að hljóma og vera flutt fyrir áheyrendur sama hvað á dynur í samfélaginu,“ segir hópurinn og bætir við: 

„Það er ótrúlegt hvað lifandi tónlistarflutningur getur gert fyrir þreyttar sálir í skammdeginu.“

Kvartettinn ætlar að taka vel á móti hækkandi sól og bjóða upp á klukkutíma tónleika þar sem söngperlur eftir íslensk og þýsk tónskáld verða flutt, einsöngslög í bland við dúetta og kvartetta.

„Við fögnum sömuleiðis nýlegum tilslökunum í sóttvarnar aðgerðum og höfum bætt við miðum á báða tónleika,“ segja þau að lokum. Miðasala fer fram hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×