Leikjavísir

Bú­ast við því að Micr­os­oft hald­i leikj­um að­geng­i­leg­um í Pla­ySt­a­ti­on

Samúel Karl Ólason skrifar
Leikir Activision eru mjög vinsælir meðal eigenda PlayStation.
Leikir Activision eru mjög vinsælir meðal eigenda PlayStation. EPA/KIMIMASA MAYAMA

Forsvarsmenn Sony, framleiðendur PlayStation leikjatölvunnar, segjast búast við því að Microsoft muni standa við samninga og tryggja áfram að tölvuleikir Activision Blizzard verði áfram aðgengilegir á PlayStation.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu talsmanns Sony til Wall Street Journal (áskriftarvefur) og er það í fyrsta sinn sem eitthvað berst frá fyrirtækinu um kaup Microsoft á Activision Blizzard.

Miklar vendingar urðu á markaði leikjaframleiðenda fyrr í vikunni þegar Microsoft opinberaði að búið væri að skrifa undir samkomulag um að tæknirisinn myndi kaupa leikjafyrirtækið Activision Blizzard. Microsoft var þegar meðal stærstu leikjafyrirtækja heims og það var AB sömuleiðis.

Microsoft ætlar að kaupa Activision Blizzard á 68,7 milljarða dala, sem samsvarar tæplega níu þúsund milljörðum króna.

Eins og margir vita þá eru Sony og Microsoft í mikilli samkeppni varðandi leikjatölvurnar PlayStation og xBox. Virði hlutabréfa Sony hefur lækkað eftir að kaupsamningurinn var opinberaður og þá að miklu leyti vegna ótta fjárfesta við það að gífurlega vinsælir leikir AB eins og Call of Duty, Overwatch og fleiri, verði ekki aðgengilegir á PlayStation í framtíðinni.

Sony hefur lengi átt í miklu samstarfi við Activision. Eins og bent er á í frétt Eurogamer hefur Sony meðal annars tekið mikinn þátt í markaðssetningu Call of Duty leikja og greitt Activision fyrir aukin fríðindi PlayStation eigenda í leikjunum.

Í frétt Verge kemur fram að Call of Duty: Black Ops Cold War var næst vinsælasti leikurinn á PS5 leikjatölvum síðasta ár, á eftir Fortnite.

Ætla að standa við gildandi samninga

Í yfirlýsingu frá Microsoft og Activision til Fjármálaeftirlits Bandaríkjanna segir að Activision muni standa við alla gildandi samninga og ekki standi til að fjarlægja leiki af leikjatölvum þar sem þeir séu þegar aðgengilegir, eins og gert var þegar Microsoft keypti Minecraft.

Það er því mjög ólíklegt að leikir eins og Call of Duty: Warzone, sem er gífurlega vinsæll, verði fjarlægður úr PlayStation-tölvum eftir að kaupin ganga í gegn árið 2023. Ómögulegt er þó að segja til um hvað gerist varðandi leiki sem Activision mun gefa út á næstu árum.

Vert er að benda á það að eftir að Microsoft keypti Bethesda, sem gerir meðal annars vinsæla leiki eins og Elder Scrolls og Fallout, var tilkynnt að Starfield, næsti leikur fyrirtækisins, verði einungis aðgengilegur í xBox og PC. Forstjóri Microsoft Gameing hefur sömuleiðis gefið í skyn að það muni einnig eiga við um næsta Elder Scrolls 6.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×