Lífið ætlar að telja niður til jóla með fallegu jólalagi úr safninu á hverjum degi fram að jólum. Í dag, 16. desember, bjóðum við upp á Joni Mitchel lagið River.
Þetta er ekki týpískt jólalag, en er jólalag engu að síður. Textinn er um hátíðarnar og söngkonan syngur um að vera leið yfir því að hún mun ekki eyða jólunum með sínum fyrrverandi. Hana dreymir um að skauta í burt frá öllu. Talið er að söngkonan hafi samið lagið eftir sambandslitin við Graham Nash en þau voru par frá 1968 til 1970.
Selma Björnsdóttir og Vignir Snær Vigfússon fluttu lagið á aðventukvöldi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Viðburðurinn var sýndur í streymi hér á Vísi fyrir jólin á síðasta ári.