Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég fæddist svokölluð A manneskja og hef eiginlega bara versnað með árunum. Ætli ég sé yfirleitt ekki sprottin á fætur fyrir sex.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Illu er best aflokið. Mér finnst eiginlega ekkert betra en að klára hreyfingu dagsins á þessum „ókristilega tíma“ eins og Bolli maðurinn minn orðar það.
Það er bara svo gott að vera búin að öllu áður en liðið vaknar og ná mögulega smá friðarstund yfir góðum kaffibolla áður en lestin keyrir af stað.“
Uppáhalds, eða óvenjulegasta, sundlaugin?
Við fjölskyldan erum fastagestir í Sundhöll Reykjavíkur. Mér finnst alltaf eins og ég sé að fara í sund á safni þegar við höldum þangað. Nýuppgerð og fín með dásamlega útiklefa sem við mæðgur elskum.
Annars eru Hreppslaug og sundlaugin í Húsafelli líka í miklu uppáhaldi hjá okkur. Það er eitthvað við sund og sögulegar tengingar þeirra, minningar og annað. Svo verður líka bara allt einhvern veginn betra eftir sund.“

Í hvaða verkefnum ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Þau eru mörg spennandi verkefnin sem við í Krónunni erum að vinna að; allt frá því að efla enn frekar úrval ferskmetis og grænmetis í samstarfi við íslenska bændur og aðra spennandi birgja og þjónustuaðila sem og að auðvelda viðskiptavinum okkur lífið með nýjum tæknilausnum á borð við „Skannað og skundað“ en við hefjum þá vegferð í Krónunni Lindum í næstu viku þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að skanna inn vörur í gegnum Snjallverslun Krónunnar, með eigin síma, setja beint ofan í poka, greiða og ganga út.
Þetta er algjör bylting á íslenskum dagvörumarkaði og viðskiptavinir okkar bíða mjög spenntir eftir að fá að prófa enda mun þetta einfalda innkaupaferðina töluvert og biðraðir heyra sögunni til.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég reyni að hafa fyrripart viku þyngri og þéttari en seinnihlutann. Föstudagar eiga að vera fundalausir þó svo það sé alls ekki ófrávíkjanleg regla. Þá daga vil ég helst verja sem mestum tíma í verslunum okkar, hitta og ræða við starfsfólkið sem stendur vaktina alla daga og er andlit Krónunnar, sem og viðskiptavini auðvitað.
Mér finnst mjög gagnlegt að spjalla við fólk sem er að versla í Krónunni heyra þeirra sjónarmið og spyrja hvað sé að virka og hvað ekki. Mikilvægast er að muna hver ræður ferðinni.
Þó að ég sé framkvæmdastjóri Krónunnar að þá er það viðskiptavinurinn sem er „aðalbossinn“ okkar í Krónunni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Hér áður gat ég bæði vakað á kvöldin og rifið mig upp snemma. Sá tími er liðinn. Þar sem ég vakna snemma að eðlisfari og mögulega enn fyrr nú en áður er ekki í boði annað, að minnsta kosti ekki marga daga í röð, en að fara að snemma að sofa. Þetta þýðir að afrekaskrá mín í sjónvarpsáhorfi er ekki upp á marga fiska enda er það umtalað í vinahópnum hvað ég sé illa að mér í sjónvarpsþáttum.“