Bæði tvennt var haldið í samfloti við teknótarfinn Bjarka en platan Hellraiser IV sem vænta má frá Skröttunum þann 20. ágúst er gefin út af plötuútgáfunni sem hann stofnaði, bbbbbb recors.
Í dag kemur út smáskífa af plötunni ásamt meðfylgjandi myndbandi. Lagið ber titilinn Ógisslegt og er samkvæmt Karli Ställborn, öðrum stofnenda Skratta, eitt pönkaðasta lagið á plötunni.
Myndbandinu er leikstýrt af Frosta Jóni Runólfssyni og Sölva Magnússyni, en sá síðarnefndi heldur þéttingsfast um míkrófóninn innan raða Skrattanna.
„Hugmyndin á bak við myndbandið og andrúmsloftið í því á rætur að rekja til stemningarinnar á 50s James Brown tónleikum; við sjáum band, söngvara, klassísk hljóðfæri á sviði, á trommunni stendur „The Skrattar“ og myndbandið gefur okkur þá tilfinningu að við séum að fylgjast með heilum tónleikum,“ segir Karl um myndbandið.
„Í byrjun birtast vatnsgreiddir Skrattar í fullum skrúða, uppstrílaðir og jakkafataklæddir í stífpússuðum skóm,“ heldur hann áfram. „Fyrr en varir eru strákarnir farnir að rífa sig úr spjörunum og láta öllum illum látum, orðnir kófsveittir og hömlulausir, glundroði ræður ríkjum á sviðinu þar sem confetti springur, hundurinn Chopper spígsporar um og loks stendur allt í ljósum logum.“
Myndbandið er tekið upp af áðurnefndum Frosta og Valdimari Jóhannessyni og um klippingu sá Frosti.
Frosti Jón hefur marga fjöruna sopið í myndbandagerð, en hann vann m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta myndbandið í fyrra fyrir lagið Sumarið sem aldrei kom með Jónsa.