Heimsmarkmiðin

Al­var­legasta hungur­kreppa aldarinnar blasir við

Heimsljós
Talið er að 174 milljón manna í 58 löndum búi við matarskort, sem er 20 milljónum fleiri en árið í fyrra.
Talið er að 174 milljón manna í 58 löndum búi við matarskort, sem er 20 milljónum fleiri en árið í fyrra. Barnaheill/Save the Children

Að mati alþjóðlegu samtakanna Barnaheill – Save the Children vofir nú yfir alvarlegasta hungurkreppa 21. aldarinnar.

 Til þess að stöðva þá óheillaþróun sem hefur orðið í heiminum á undanförnum mánuðum hafa alþjóðsamtök sett af stað stærstu fjáröflun í rúmlega 100 ára sögu samtakanna þar sem markmiðið er að safna 130 milljónum Bandaríkjadala á næstu mánuðum til þess að sporna við hungri í heiminum.

Talið er að 174 milljón manna í 58 löndum búi við matarskort, sem er 20 milljónum fleiri en árið í fyrra. Um 150 milljónir manna eiga á hættu að verða ýtt út í fátækt á þessu ári, einkum vegna afleiðinga heimsfaraldurs, átaka og loftslagsbreytinga. Alls 16,8 milljón börn standa frammi fyrir miklum matarskorti, þar af búa 5,7 milljónir barna við alvarlega vannæringu og er vart hugað líf.

„Í fyrsta sinn í áratugi hefur hungur og vannæring barna aukist og eiga fjölskyldur víða um heim í erfiðleikum með að veita börnum sínum næringaríkan mat. Áhrif og afleiðingar heimsfaraldurs, átaka og loftslagsbreytinga hafa ýtt undir aukið hungur og vannæringu á mettíma. Án aðgerða gætum við horft upp á milljónir barna svelta til dauða og snúið þannig við áratuga framförum,“ segir í frétt Barnaheilla.

Barnaheill hafa veitt neyðaraðstoð til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó undanfarna mánuði en hvergi í heiminum búa fleiri börn undir fimm ára aldri við alvarlegan matarskort. Einnig starfa Barnaheill í Sýrlandi þar sem samtökin leggja áherslu á barnavernd, menntun og heilsu barna, þar á meðal að sporna við hungri. En átök og heimsfaraldur hafa sett stórt strik í reikninginn og hungur barna jókst í Sýrlandi um 56% á milli ára 2020 og 2021. Sama má segja um Jemen þar sem Barnaheill vinna einnig að mannúðaraðstoð, en þar jókst hungur um 10% á milli ára. Í Afganistan þjáist helmingur barna undir fimm ára aldri, eða um 3,1 milljón börn, af miklu hungri.

„COVID-19, átök, vonskuveður, flóð og aðrar náttúruhamfarir hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á undanförnum mánuðum fyrir hungur í heiminum. Matvælaverð hefur hækkað sem hefur haft áhrif á lífsbjargir fjölskyldna. En það er ekki skortur á mat í heiminum. Það er til nægur matur fyrir hvert barn og fullorðinn einstakling en honum er skipt ójafnt. Við höfum tækifæri til þess að bjarga öllum þessum börnum frá vannæringu og við verðum að bregðast við strax,“ segir í fréttinni.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hvetja stjórnvöld út um allan heim til þess að fjármagna að fullu viðbragðsáætlanir vegna mannúðarmála og styðja við áætlanir um heilbrigðisþjónustu fyrir börn, þar með talið meðferðum við vannæringu. Samtökin hvetja jafnframt stjórnvöld víðsvegar um heim að beita sér fyrir auknu aðgengi að mannúð að öllu tagi, svo að öll börn geti fengið þann stuðning sem þau þurfa.






×