„Þetta er mín fyrsta kvikmynd, ég skrifa bæði handrit og leikstýri en hún er byggð á skáldsögunni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur.,“ segir Tinna Hrafnsdóttir í samtali við Vísi. Verkefnið hefur verið í vinnslu frá árinu 2016, þegar skrifað var undir samning um gerð myndarinnar. Árið 2015 hlaut bókin Stóri skjálfti bóksalaverðlaunin og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.
„Þegar Saga vaknar upp eftir heiftarlegt flogakast á Klambratúni man hún lítið sem ekkert hvað gerðist í aðdraganda þess. Í leit hennar að upplýsingum um sjálfa sig og sína nánustu fara minningar sem Saga bældi niður sem barn að koma upp á yfirborðið, minningar sem neyða hana til að horfast í augu við sjálfa sig og fjölskyldu sína sem tekist hafði að þegja ógnvænlegt leyndarmál í hel.“ segir hún um söguþráðinn.
Sýnishornið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en myndin fer í sýningu í haust.