Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Yfirleitt vakna ég um klukkan sex eða sjö, finnst gott að byrja daginn snemma.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að fá mér kaffibolla sem ég drekk yfir lestri frétta, þá helst fréttir um atvinnulífið, viðskipti eða fótbolta. Því næst tekur við rútínan, vekja þá eldri og koma henni í skólann.
Morgnarnir í vinnunni eru svo yfirleitt rólegir til svona níu en þá tekur þétt dagskrá við og lægir oftast ekki fyrr en milli fjögur og fimm, enda finnst mér best að hafa nóg að gera. Einn morgun í viku tek ég stutt útihlaup að morgni en útihlaup og golf eru mínar leiðir til að núllstilla og jarðtengja.“
Hvernig myndir þú lýsa fullkominni helgi á tímum Covid?
„Fullkominn dagur um helgi er þannig að ég vakna snemma til að ná smá einveru þar sem ég ligg í alls konar grúski á meðan ég fæ mér kaffibolla.
Í grúskinu byrja ég oft á fréttum en enda iðulega í greinum eða viðtölum við áhugavert fólk. Þegar fjölskyldan er komin á fætur tekur við dýrindis morgunverður sem fylgir innihaldsríku spjalli við konuna og dæturnar tvær.
Þegar kaffið og veitingarnar eru frágengnar þá tekur við dagskrá með fjölskyldunni, svo sem útivera eða önnur skemmtileg verkefni, en mér finnst fátt skemmtilegra en þéttur listi af verkefnum. Ef tími gefst þá eru spilaðar níu eða átján holur á golfvellinum eða tíu kílómetrar hlaupnir á ,,spjallhraða” með konunni. Dagurinn endar svo á eðal kvöldmat sem fylgir spilakvöldi með fjölskyldunni.“

Hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Flest mín verkefni í dag eru á sviði stjórnendaleitar og ráðninga ásamt ráðgjöf til stjórnenda vegna breytingaverkefna og bættrar stjórnunar. Það sem sameinar öll þessi verkefni er ráðgjöf tengd mannlegri hegðun og aðstoð til stjórnenda við leit lausna á áskorunum sem þeir standa frammi fyrir.
Með hverjum ég er að vinna þessa dagana er trúnaðarmál en ég get sagt að á meðal verkefna sem kláruðust nýlega voru aðstoð við ráðningu fjármálastjóra fyrir fiskeldisfélag og ráðning tæknistjóra fyrir verslunarkeðju.
Í ráðgjöfinni var ég nýverið að aðstoða stjórnanda í frammistöðumati og öðru þar sem unnið var að því að styðja stjórnanda að bættri stjórnun starfsfólks í fjarvinnu.
Þegar tími gefst fyrir innri verkefni þá vinn ég að hlaðvarpi fyrirtækisins, Ræðum það.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég nota hugbúnað til að aðstoða og auðvelda mér skipulagið en hraðinn og umfang verkefna krefjast þess að þétt sé haldið á spöðunum. Ég er stöðugt í samskipum við fólk, hvort sem um er að ræða viðskiptavini eða öflug fólk í atvinnulífinu, þannig að gott skipulag skiptir sköpum á þétt bókuðum dögum. Við notum Asana í verkefnavinnu sem hentar vel til að útbúa „To-do” lista sem hægt er hlekkja á allt teymið, Við bókun funda nota ég Calendly.
Morgnarnir eða lok hvers dags fara oft í skipulagið þar sem það er oftar enn ekki besti tíminn í slíka vinnu. Þegar ég er í hringiðunni þá er ég svo heppinn að hafa mjög gott teymi með mér til að aðstoða við skipulagningu ýmissa verkefna. Skipulagshæfileikarnir eru áunnir og þarf ég því að nýta tæknina og skýran ramma.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Yfirleitt er það á milli klukkan ellefu og miðnættis. Það fer svolítið eftir þriggja mánaða gōmlu dóttur minni, nýjasta meðlimi fjölskyldunnar.“