Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Tindastóll 107-81 | Stólarnir steinlágu í Keflavík

Atli Freyr Arason skrifar
Vísir/Vilhelm

Keflvíkingar fóru illa með Sauðkrækinga í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld.

Keflavík byrjaði leikinn í kvöld töluvert betur en liðið skoraði fyrstu 11 stig leiksins og var það jafnframt mesti munur liðanna í fyrri hálfleik, því við tók 2-10 kafli hjá Tindastól. Heimamenn héldu þó áfram að vera skrefi á undan gestunum en Stólarnir náðu þó hægt og rólega að saxa á forskot Keflavíkur en gestirnir skoruðu síðustu 6 stig fyrsta leikhluta sem lauk með eins stigs mun, 23-22 fyrir Keflavík.

Keflavík byrjaði annan leikhluta líkt og þann fyrsta en nú skoruðu þeir fyrstu 9 stig leikhlutans og gerði Dominykas Milka 7 þeirra, 32-22. Var þessi 10 stiga munur milli liðanna eins mikill og munurinn varð í leikhlutanum því líkt og í fyrsta leikhluta kom Tindastóll til baka og minnkuðu muninn í 4 stig og það alls þrisvar sinnum í leikhlutanum. Keflavík með Milka og Williams fremsta í flokki settu þá í sjötta gír og unnu þeir annan leikhluta 25-17 og liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik í stöðunni 48-39.

Stólarnir settu niður fyrstu körfu þriðja leikhluta en eftir það tóku heimamenn leikinn í sínar hendur eins og áður og skoruðu næstu 9 stig. Munurinn þá kominn í 16 stig og átti hann bara eftir að stækka eftir því sem á leið þriðja leikhluta en mestur var munurinn 28 stig þegar Max Montana, nýjasti leikmaður Keflavíkur, setti niður þriggja stiga tilraun til að koma leiknum í 76-48. Stólarnir kláruðu þó þriðja leikhluta með því að skora síðustu 8 stigin. 76-56 var staðan fyrir síðasta fjórðunginn í leiknum.

Viðspyrna Tindastóls í síðasta leikhlutanum var lítil sem enginn. Mest fór munurinn á milli liðana í 32 stig en leiknum lauk með 26 stiga sigri heimamanna, 107-81.

Af hverju vann Keflavík?

Skotnýting Keflavíkur var töluvert betri en hjá Tindastól. Stólarnir gáfu skyttum Keflavíkur allt of mikið af opnum skotum og Stólarnir töpuðu boltanum allt of auðveldlega í sóknaraðgerðum sínum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Tindastóls. Keflavík gat kastað boltanum of auðveldlega þvert í gegnum vörn Tindastóls án þess að gestirnir gátu komið einhverjum vörnum við. Einnig vantaði upp á framlög frá sóknarleik Tindastóls í kvöld. Pétur Rúnar setti t.d. bara niður 2 stig á 31 mínútu og Nikolas Tomsick og Shawn Glover voru samanlagt bara með 29 stig, en Glover hefur einn verið með 30,3 stig að meðaltali í leik tl þessa.

Hverjir stóðu upp úr?

Dominykas Milka er fastagestur undir þessum lið í Keflavíkur liðinu. Dom var stigahæstur í kvöld með 23 stig ásamt því að vera með flest fráköst, 15 stykki. Hörður Axel Vilhjálmsson endaði leikinn með flestar stoðsendingar, alls 14 talsins. Ásamt því gerði Hörður 16 stig og tók 4 fráköst.

Jaka Brodnik var besti leikmaður Tindastóls í þessum leik með 20 stig, 5 fráköst og eina stoðsendingu.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær óvenju langa pásu miðað covid árferðið. Þeir fara næst á Hlíðarenda eftir 5 daga á meðan Tindastóll tekur á móti Grindavík á Sauðárkrók degi fyrr, þann 11. febrúar.

Helgi Rafn: Hjalti er alltaf svo æstur

Helgi Rafn Viggósson, leikmaður Tindastóll, sagði að sínir menn hefðu ekki mætt rétt stemmdir til leiks í kvöld gegn sterku liði Keflavíkur.

„Við vorum bara ekki klárir í þetta, það er ekkert flóknara en það. Þetta hefði ekki alveg átt að vera svona stórt tap en það fór sem fór og við förum bara í næsta leik og græjum okkur í það á fimmtudaginn,“ sagði Helgi Rafn í viðtali eftir leik.

Aðspurður af því hvað það var sem klikkaði í leik Tindastóls í kvöld var Helgi ekki í neinum vafa.

„Það er klárlega vörnin, við eigum ekki að fá 107 stig á okkur.“

Í byrjun fjórða leikhluta lentu Dominykas Milka og Helga Rafni saman sem varð til þess að Milka féll til jarðar og Helgi fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Helgi segir að þetta hafi allt verið óvart.

„Ég rétti fram hendina og ég hélt að hann ætlaði að hjálpa mér upp en hann hljóp bara yfir mig og ég tók óvart í löppina á honum í staðinn, sagði Helgi og hló áður en hann bætti við „þetta var nú bara slys, ég ætlaði ekki að gera neitt við hann. Hann sagði það einmitt við mig eftir á að hann ætlaði að hjálpa mér upp, þannig þetta var bara slys.“

Í kjölfarið lét Hjalti Þór, þjálfari Keflavíkur, Helga heyra það en Helgi vildi þó ekki gera mikið úr því atviki.

„Það var ekki neitt. Hjalti er alltaf svo æstur, ég heyrði ekki í honum því hann talaði svo lágt. Þetta var ekki neitt,“ sagði Helgi Rafn Viggósson að lokum með stórt glott á andlitinu.

Max Montana: Ef þú getur opnað klúbbana þá geturðu opnað vellina

Max Montana spilaði sinn fyrsta leik í Dominos deildinni í 107-81 sigri Keflavíkur á Tindastóli í kvöld. Max segir fyrstu kynni sín af deildinni séu góð.

„Við skemmtum okkur vel í kvöld, það er mjög góður liðsandi í Keflavíkur liðinu. Það er samt leitt að engir íslenskir aðdáendur voru í stúkunni en COVID ástandið er augljóslega að koma í veg fyrir það. Íslendingar kunna samt heldur betur að spila körfubolta,“ sagði Max og hló.

Margir úr íþróttahreyfingunni hafa einmitt gagnrýnt sóttvarnaryfirvöld að tilslakanir á íþróttaviðburðum hafi ekki verið nægilega miklir og að áhorfendum hafi ekki verið hleypt aftur inn á vellina. Max stóð ekki á svörunum aðspurður út í þetta.

„Ég held að ef þú getur opnað klúbbana þá geturðu opnað vellina, er það ekki?“

Max Montana kom af bekknum í kvöld og gerði 13 stig en hann var stigahæstur af þeim sem komu af varamannabekknum í kvöld en Keflavík hefur einmitt vantað meira framlag frá varamannabekknum sínum. Max var þó ekki nægilega ánægður með frammistöðu sína í kvöld.

„Mér finnst alltaf eins og ég geti gert betur. Ég náði bara 3 af 10 þriggja stiga skotum sem er ekki nógu gott. Þegar ég kemst almennilega í gang þá mun ég gera betur. Ég hef ekki spilað körfubolta í næstum því heilt ár núna. Um leið og ég næ taktinum aftur þá mun ég getað hjálpað liðinu mínu töluvert meira,“ svaraði Max um leikinn sinn í kvöld.

Það hefur komið fram í íslenskum fjölmiðlum að Max sé vinsæll á samfélagsmiðlum og komst hann ekki hjá því að vera spurður aðeins út í samfélagsmiðlana sína.

„Mér finnst þetta fyndið. Einhver benti mér á frétt þar sem fyrirsögnin var að systir mín væri með fleiri fylgjendur en ég. Það hefur í raun alltaf verið þannig, ég hef alltaf verið þekktur sem bróðir hennar. Ég myndi ekki vilja hafa það öðruvísi. Ég vil að hún fái allt sem hún vill,“ sagði skælbrosandi Max Montana að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira