„Ég er bara svekktur. Það er svekkjandi að taka þetta ekki þegar við spilum svona vörn. Að fá á sig tuttugu mörk á að duga til sigurs en það er erfitt að vinna þegar þú skorar bara átján mörk,“ sagði Ólafur við Vísi eftir leikinn.
Eins og lokatölurnar gefa til kynna var íslenska sóknin mjög slök í leiknum í dag.
„Það var margt sem virkaði ekki. Þetta byrjaði að hökta og svo klikkuðum við á dauðafærum og þetta varð fyrirsjáanlegt,“ sagði Ólafur.
Þótt íslenska vörnin hafi verið sterk í leiknum í dag skilaði hún ekki mörgum hraðaupphlaupum.
„Við ræddum um að við ættum að fá betur borgað í hraðaupphlaupum þegar við fáum þessa vörn og markvörslu. Það var sama taktleysið þar,“ sagði Ólafur að endingu.