Borgarleikhúsið býður upp á tónleika með Bubba Morthens klukkan 12 í dag og alla föstudaga á meðan á samkomubanni stendur.
Þetta er hluti af verkefninu Borgó í beinni en leikhúsið býður upp á fjöldan allan af viðburðum sem streymt er heim í stofu landsmanna. Útsendingarnar eru allar aðgengilegar hér á Vísi.
Bubbi mætir í Borgarleikhúsið með gítarinn, tekur nokkur lög og segir sögurnar á bakvið lögin.
Framundan hjá Borgó í beinni
Laugardagar eru tileinkaðir ungu kynslóðinni í streymi Borgarleikhússins. Á laugardaginn klukkan 12 mun Halldór Gylfason lesa söguna um Stígvélaða köttinn.
Þann sama dag klukkan 14 verður eitthvað fyrir þá sem hafa gaman að spilum því leikarar í Borgarleikhúsinu ætla að spila saman Dungeons and Dragons.
Á sunnudag er síðan komið að stórsýningunni Ríkharður III en hún verður sýnd klukkan 20 um kvöldið.