Allt frá klassískum uppstúf, sykurbrúnuðum kartöflum og gljáa á hrygginn yfir í nýjar hugmyndir, líkt og vegan lausnir, Ketó jól, 12 tíma graflax og fleira.
Áherslan er sett á stóru smáatriðin sem fullkomna matinn um hátíðirnar.
Í sjötta þættinum fer Anna Björk ítarlega í gegnum það hvernig maður reiðir fram grafinn lax með sinnepsdressingu. Hér að neðan má sjá þáttinn í heild sinni.
Hér að neðan má finna uppskriftina sjálfa. Hún er hugsuð fyrir um tíu manns og sem forréttur.
Grafinn lax með sinnepsdressingu
Grafinn lax:
- Laxaflak, ca. 1 kg.
- 3 msk. sinnepskorn
- 3 msk. kóríander fræ
- 100 gr. hrásykur
- 2 msk. sjávaralt flögur
- 1-1/2 msk. dill fræ
- 2 msk. eplaedik
Laxaflakið er beinhreinsað og snyrt til. Sinnepskorn og kóríander fræ eru ristuð á þurri pönnu þar til þau eru ilmandi, kæld. Salti og sykri er blandað saman og jafnað yfir laxaflakið, ásamt ristaða kryddinu og dill fræunum, í lokin er edikinu dreypt yfir. Plastfilma er breidd yfir laxinn og hann látinn grafast í 12 tíma upp í 24 tíma í ísskáp. Þegar þú berð hann á borðið, er mest af kryddinu skafið af flakinu og hann skorinn í mjög þunnar sneiðar, best að nota hníf með löngu sveigjanlegu blaði. Laxasneiðunum er raðað fallega á fat eða disk og borið fram með grófu kjarnarúgbrauði eða súrdeigsbrauði, mjúku smjöri og Jóla sinnepi
Jóla sinnep:
- 1-2 meðalstórar krukkur
- 100 gr. sætt sinnep
- 400 gr. Dijon sinnep
- 2 msk. Colmans sinnep
- 150 - 200 gr. púðursykur
- 1/2 msk. eplaedik
- 1/2 tsk. malaður negull
- 1 1/2 msk. kanell
- 1 tsk. salt
- 1 cl Jóla ákavíti
Öllu blandað saman í pott og látið malla við lágan hita í 20 mín., kryddað og smakkað til. Sett í fallega krukku og kælt.