Enski boltinn

Valgeir með tvö á korteri gegn Leicester

Sindri Sverrisson skrifar
Valgeir Valgeirsson fer vel af stað í Englandi.
Valgeir Valgeirsson fer vel af stað í Englandi. Twitter-síða Brentford

Hinn 18 ára gamli HK-ingur Valgeir Valgeirsson hefur byrjað af krafti með varaliði Brentford og hann skoraði tvö mörk í sigri gegn U23-liði Leicester í Englandi í dag.

Valgeir kom inn á sem varamaður á 75. mínútu og nýtti tímann vel því hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri. Brentford hafði verið 1-0 undir í hálfleik.

Fyrir tveimur vikum lék Valgeir sinn fyrsta leik fyrir varalið Brentford, eftir að hafa komið að láni frá HK, og skoraði þá einnig tvö mörk auk þess að leggja eitt upp, í 6-2 sigri á Hendon FC í Lundúnabikarnum svokallaða.

Varalið Brentford er skipað leikmönnum á aldrinum 17-21 árs og spilar ekki í neinni deildarkeppni, en leikur æfingaleiki við U23- og U21-lið félagsliða og landsliða, og í bikarkeppnum.

Aðallið Brentford leikur í næstefstu deild Englands og er sem stendur í 9. sæti, eftir að hafa endað í 3. sæti á síðustu leiktíð og tapað 2-1 fyrir Fulham í úrslitaleik um að komast upp í úrvalsdeildina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×