Enski boltinn

Giggs handtekinn vegna gruns um að ráðast á kærustu sína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Giggs er þjálfari velska karlalandsliðsins.
Ryan Giggs er þjálfari velska karlalandsliðsins. getty/Charles McQuillan

Ryan Giggs, þjálfari velska landsliðsins, var handtekinn á sunnudaginn vegna gruns um að hafa ráðist á kærustu sína, Kate Greville.

Lögreglan var kölluð til að heimili Giggs á sunnudagskvöldið vegna óláta. Giggs var handtekinn en var sleppt úr haldi gegn tryggingu.

Samkvæmt umboðsmanni Giggs hafnar hann sök og reyni eftir fremsta megni að aðstoða lögregluna við rannsókn málsins.

Vegna handtöku Giggs hefur velska knattspyrnusambandið frestað blaðamananfundi sem átti að vera í dag. Þar átti Giggs að tilkynna velska landsliðshópinn fyrir næstu leiki liðsins.

Giggs og Greville hafa verið í sambandi síðan 2017. Þau kynntust 2013 þegar hún byrjaði að vinna fyrir Hotel Football sem Giggs er meðeigandi að.

Giggs á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Stacey Cooke. Þau skildu eftir að upp komst að Giggs hafði haldið framhjá henni með eiginkonu bróður síns í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×