Heimsmarkmiðin

Vill hefja kartöflurækt en á ekki fyrir útsæði

Heimsljós kynnir

„Í þróunarríkjum eru smáfyrirtæki oft í þeirri stöðu að fá ekki lánagreiðslu hjá bönkum vegna þess að mat á lánshæfi þeirra byggir á öðrum upplýsingum en notaðar eru við mat á lánshæfi stórra fyrirtækja, svo sem ársreikningum, og einnig vegna skorts á þekkingu bankanna til að meta lánshæfið á grunnvelli annarra gagna. Án aðgengis að lánsfé er ljóst að margir geta ekki hafið atvinnurekstur, til dæmis konan sem vill hefja kartöflurækt en á ekki fjármagn til að kaupa útsæði,“ segir Hákon Stefánsson stjórnarmaður Creditinfo.

Utanríkisráðuneytið veitti á dögunum Creditinfo Group hf. tæplega 23 milljóna króna styrk til verkefnis í Vestur-Afríku sem snýst um að vinna lánshæfisgreiningar fyrir smáfyrirtæki og einyrkja í því skyni að bæta aðgengi eigenda þeirra að lánsfé. Verkefnið stendur yfir í tvö ár og verður í upphafi framkvæmt í tveimur löndum, Fílabeinsströndinni og Senegal. Styrkurinn er veittur úr samstarfssjóði atvinnulífsins um heimsmarkmiðin en hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífs til  þróunarsamvinnu.

Martin Eyjólfsson skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnu og Hákon Stefánsson stjórnarmaður Creditinfo eftir undirritun samningsins.

Samkvæmt áliti matshóps fellur verkefnið vel að markmiðum sjóðsins og áttunda heimsmarkmiðinu um góða atvinnu og hagvöxt, þ.e. stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Enn fremur segir í álitinu að í verkefninu felist einnig tækninýjungar og nýsköpun sem sé í takt við vaxandi áherslur á fjármálatækni í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og áherslur sjóðsins um frumkvöðlastarf. Einnig er bent á að einyrkjar og eigendur smáfyrirtækja séu í mörgum tilvikum konur.

Hákon bendir á að Alþjóðabankinn og margar fleiri fjármálastofnanir hafi ítrekað bent á að bæta þurfi aðgengi smáfyrirtækja að lánsfé í þróunarríkjum enda séu þau talin drifkraftur hagvaxtar. „Lykilþáttur í bættu aðgengi að lánsfé eru fjárhagsupplýsingar lántakanda eins og skuldsetning og greiðslusaga en þær eru til þess fallnar að draga úr áhættu í lánsviðskiptum. Kjarnastarfsemi Creditinfo er einmitt rekstur fjárhagsupplýsinga fyrirtækja og með því að innleiða þjónustuna, sem auðveldar lánveitendum að lánshæfismeta lítil fyrirtæki, teljum við að aðgengi þeirra að lánsfé aukist og lánakjör batni sem er líklegt til að skila sér í vaxtatækifærum,“ segir Hákon.

Ef vel gengur verður verkefnið innleitt í öðrum sex löndum í vesturhluta Afríku, Benín, Búrkina Fasó, Guinea Bissá, Malí, Níger og Tógó. 

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×