Veiði

1.004 fiska vika í Veiðivötnum

Karl Lúðvíksson skrifar
Ísarr Edwinsson með 15 punda urriða úr Veiðivötnum.
Ísarr Edwinsson með 15 punda urriða úr Veiðivötnum. Mynd: Edwin Árnason

Það styttist í að veiði ljúki í Veiðivötnum en heildarveiðin í vötnunum þetta sumarið stóð í 16.658 fiskum þegar síðustu tölur lágu fyrir.

Veiðitölurnar eru uppfærðar á hverjum föstudegi og þegar rýnt er í veiðina í sumar er hún frekar dræm, í það minnsta í urriðanum þegar taldir eru saman stangardagar, fjöldi stanga og veiði pr stöng. Alls hafa veiðst 7.165 urriðar og 9.493 bleikjur í sumar en urriðaveiðin hefur verið það döpur suma dagana að veiðimenn sækja í vötnin þar sem næga bleikju er hægt að veiða og laga þar með heildartöluna mikið. Á góðu ári þegar urriðaveiðin er betri er ásóknin í bleikjuna minni.

Í síðustu talningarvikunni veiddust 1.004 fiskar sem er minnsta veiðin í sumar en það er heldur ekkert óeðlilegt að veiðin dragist saman á þessum tíma. Mesta urriðaveiðin er sem fyrr í Litlasjó en þar hafa veiðst 2.685 urriðar. Mesta bleikjuveiðin er svo í Snjóölduvatni en þar hafa veiðst 5.257 bleikjur en meðalþyngdin er ekki merkileg í þessu vatni eða rétt tæp 0,6 pund sem segir að vatnið þarfnast grisjunar. Sama sagan í Nýjavatni en þar hafa veiðst 2.639 bleikjur með meðalþyngd upp á 0,4 pund og þar er grisjunar greinilega þörf.

Einu vötnin sem eru komin yfir 1.000 fiska í sumar eru Hraunvötn með 1.474 fiska, Litlisjór með 2.685 fiska, Nýjavatn með 2.639 fiska og svo Snjóölduvatn með 5.257 fiska. Þessar upplýsingar og veiðitölur úr Veiðivötnum má finna á www.veidivotn.is.






×