Fótbolti

Búinn að skora fleiri mörk í Meistaradeildinni en allt Barcelona liðið til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Håland fagnar sigrinum á PSG í gær með félögum sínum í Dortmund.
Erling Braut Håland fagnar sigrinum á PSG í gær með félögum sínum í Dortmund. Getty/Erwin Spek

Það kemur kannski ekki mikið á óvart en Norðmaðurinn Erling Braut Håland var aftur á skotskónum í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Draumabyrjun hans með Dortmund og ótrúlegt frammistaða hans á sinni fyrstu leiktíð í Meistaradeildinni er engu öðru líkt.

Erling Braut Håland skoraði bæði mörk Borussia Dortmund í 2-1 sigri á Paris Saint Germain í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.  Það má sjá mörkin hans hér fyrir neðan.

Mörkin hans á tímabilinu eru nú orðin 39 talsins þar af ellefu mörk í aðeins sjö leikjum með Borussia Dortmund.



Eftir þessi tvö mörk í gærkvöldi er Erling Braut Håland búinn að skora tíu mörk í sjö leikjum í Meistaradeildinni. Þessi nítján ára strákur er þannig búinn að skora fleiri mörk í Meistaradeildinni á þessu tímabili en allt Barcelona liðið til samans.

Barcelona hefur skorað 9 mörk samanlagt í sex leikjum sínum í Meistaradeildinni en á reyndar inni einn leik á Erling Braut Håland. Atlético Madrid (9 mörk), Valencia (9 mörk), Lyon (9 mörk) og Atalanta (8 mörk) hafa líka skorað færri mörk en Norðmaðurinn öflugi.

Erling Braut Håland var fjórum leikjum á undan í sitt tíunda Meistaradeildarmark en fyrri methafi og er eini táningurinn í sögunni sem nær að skora tíu mörk á einu tímabili í Meistaradeildinni. Kylian Mbappe, Cristiano Ronaldo og Lionel Messi byrjuðu allir snemma að láta af sér kveða en enginn þeirra náði þessu.





Håland er fyrsti leikmaðurinn í glæsilegri sögu Borussia Dortmund sem nær að skora í fyrsta deildarleiknum, fyrsta bikarleiknum og fyrsta Meistaradeildarleiknum.

Hann er þegar kominn með ellefu mörk fyrir þýska félagið þrátt fyrir að hafa spilað „aðeins“ í 450 mínútur í búningi félagsins. Það þýðir mark á 41 mínútna fresti sem leikmaður Borussia Dortmund.

Flest mörk í Meistaradeildinni 2019-20:

1. Erling Braut Håland, Red Bull Salzburg og Dortmund 10

1. Robert Lewandowski, Bayern München     10

3. Harry Kane, Tottenham 6

4. Kylian Mbappé, Paris Saint-Germain 5

4. Son Heung-min, Tottenham 4

4. Memphis Depay, Lyon 4

4. Mauro Icardi, Paris Saint-Germain 4

4. Raheem Sterling, Manchester City 4

4. Dries Mertens, Napoli 4

4. Lautaro Martínez, Internazionale 4




Fleiri fréttir

Sjá meira


×