Veiði

Selá og Hofsá að eiga gott veiðitímabil

Karl Lúðvíksson skrifar
Veiðin í Selá hewfur verið mjög góð í sumar.
Veiðin í Selá hewfur verið mjög góð í sumar. Mynd: Strengur angling FB

Þegar veiðitölur eru skoðaðar er reglulega gaman að sjá hvað árnar á norðausturlandi eru að koma vel inn og eiga gott sumar. 

Við höfum greint frá veiðinni í Jöklu sem er ekki langt frá þeim en þar á bæ stefnir líklega í eitt besta sumar í ánni þegar veiðin er komin í 458 laxa og þar með komin yfir veiðina í fyrra. Þar á bæ gengur mjög vel og er mikill lax í ánni. Selá og Hofsá eru að sama skapi að eiga virkilega gott sumar og miðað við magn af laxi í báðum ánum eiga þeir mikið inni.

Heildarveiðin í Hofsá er komin í 576 laxa og það styttist hratt í að hún nái heildarveiðinni í fyrra en á samt næstum því helminginn af tímabilinu eftir svo hún stefnir með hraðbyr í að ná að okkur sýnist góðri tölu í sumar haldi veiðin áfram að vera jafn góð og hún hefur verið. Selá er líka í fluggír með heildarveiði upp á 620 laxa. Þegar tölur eru skoðaðar nokkur ár aftur í tímann þá sérstaklega á góðum og meðalárum gæti áinn endað einhvers staðar þar á milli. Það er eins og í Hofsá mikið af laxi í ánni, frábært vatn og nægur tími til að hækka töluna vel í ánni. 






×