Bílar

Hyperion XP-1 vetnis-ofurbíll verður frumsýndur í ágúst

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Útlínur Hyperion XP-1
Útlínur Hyperion XP-1

Ameríska sprotafyrirtækið Hyperion ætlar að kynna vetnis-ofurbíl sem notast við tækni frá Nasa. Bíllinn verður kynntur í næsta mánuði. Hann er vistvænn en á að vera ógnar aflmikill.

Hyperion XP-1 er grænn kostur á móti ofurbílum sem notast við bensín eða jafnvel dísel. Þá hefur bíllinn það fram yfir raf-ofurbílana að það er auðveldara að fylla á hann heldur en rafbílana, sem tekur vissan tíma að hlaða. Að fylla á vetnið tekur álíka tíma og að setja bensín eða dísel á bíl.

Angelo Kafantaris stofnaði Hyperion árið 2011 og er framkvæmdastjóri félagsins í dag.

Bíllinn er breiður og útlínurnar eru ekki ólíkar Bugatti Veyron. Það er óljóst hvort bíllinn er tveggja sæta eða fjögurra sæta.

Frammistaða Hyperion XP-1 er enn mikið leyndarmál. Upphaflega stoð til að frumsýna bílinn á bílasýningunni í New York en henni hefur nú verið aflýst vegna kórónaveirufaraldursins. Hann verður því sýndur í netfrumsýningu í ágúst.

Verð og öll smáatriði eru ennþá óljós en verða væntanlega gerð opinber við frumsýningu. Reikna má með að bíllinn verði seldur í fáum eintökum.






×