Veiði

Nýr og betri rjúpusnafs

Karl Lúðvíksson skrifar
Rjúpusnafs er skemmtileg hefð
Rjúpusnafs er skemmtileg hefð

Það er hefð hjá nokkrum rjúpnaskyttum að gera snafs úr rjúpunni eða öllu heldur úr þeim jurtum sem má finna í sarp og fóarni.

Þessi snafs smakkast mjög vel og undirritaður gerði sína fyrstu tilraun til að gera þennan snafs um síðustu jól en fékk svo að vita að hann hafi ekki verið alveg samkvæmt leiðbeiningum en góður var hann engu að síður. Batnandi mönnum er best að lifa svo ég tek því fagnandi að fá ítarlegri leiðarvísi að þessu ljúfa bragði sem þessum snafs fylgir og bið um leið afsökunar á því að hafa aðeins klikkað á nokkrum smáatriðum í fyrra.

Málið er þannig að ég notaði líklega helst til of mikið af innihaldi fóarnsins í hverja flösku eða um það bil innihald úr átta fóörnum í hverja flösku. En það sem meira er ég klikkaði víst alveg á að nota innihald úr sarpinum með en það er víst mun mýkra bragð sem kemur með því sem og það síðasta sem ég klikkaði á en það er að þynna vodkann sem snafsinn er gerður úr niður í 30%. Þannig að það voru gerð nokkur mistök í fyrra EN.... hann var samt góður!

Það sem ég er sem sagt að gera þetta árið er að blanda 50/50 innihaldi úr fóörnum og sarpi í ca decilíter í hverja flösku (ég hef valið að nota Reyka vodka). Muna bara að hella af flöskunni áður og þynna vodkann í 30% og það er best að gera með með vatni sem er búið að sjóða eða er eimað. Blandan sem síðan fer í flöskuna þarf að vera þurrkuð vel og þegar það er búið að koma henni í flöskuna fer tappinn í og hún látin standa í 7-10 daga. Sumir láta það jafnvel standa aðeins lengur. Smakkaðu smá í ferlinu til að finna hvenær bragðið er komið og þá þarf að filtera vodkann vel til að ná öllu úr honum. Þegar því er lokið er hægt að hella honum aftur í flöskuna. 

Svona á þetta víst að vera ennþá betra en ekki misskilja þetta, hin uppskriftin frá því í fyrra var góð, mjög góð en reif alveg aðeins í, sterkt og gott lyngbragð eftir á. Smá karmellulitur á vodkanum sem gerði þetta fallegt í flösku. Læt ykkur vita hvernig þetta tekst þetta árið.






×