Fótbolti

Skagamenn mæta Derby í kvöld: „Allir í bænum spenntir fyrir leiknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð.
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð. mynd/ía
ÍA tekur á móti Derby County í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Unglingadeildar UEFA í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og fer fram á Víkingsvelli.

„Þetta er fínt. Maður er ekki vanur að spila svona lengi en við höfum verið duglegir að æfa,“ sagði Sigurður Hrannar Þorsteinsson, fyrirliði ÍA, í samtali við Vísi í gær. Hann var þá nýkominn úr skólanum og á leið á æfingu.

ÍA hefur orðið meistari í 2. flokki undanfarin tvö ár. Í sumar töpuðu Skagamenn ekki leik í A-deild og fengu sjö stigum meira en næsta lið, Breiðablik. Sigurður var markahæsti leikmaður A-deildarinnar með 22 mörk í 18 leikjum. Hann var einnig viðloðandi meistaraflokk ÍA.

Í 32-liða úrslitum Unglingadeildar UEFA unnu Skagamenn Levadia Tallinn frá Eistlandi, 16-1 samanlagt. ÍA vann fyrri leikinn á Akranesi, 4-0, og þann seinni, 12-1, sem er stærsti sigur liðs í sögu Unglingadeildar UEFA.

Gefur sér að þeir séu góðir í fótbolta„Við vissum voða lítið um þetta lið. Við ætluðum bara að spila okkar leik og það gafst mjög vel, allavega í seinni leiknum,“ sagði Sigurður. Hann býst við öllu erfiðari leikjum gegn Derby. Enska liðið vann Minsk frá Hvíta-Rússlandi í 16-liða úrslitunum, 9-2 samanlagt.

„Við sáum seinni leikinn gegn Minsk á YouTube. Maður getur gefið sér það að þeir séu góðir í fótbolta. Það eru nokkrir sem eru að æfa með aðalliði Derby,“ sagði Sigurður sem er fæddur árið 2000 og er á lokaári sínu í 2. flokki.

Hann segir Skagamenn spennta fyrir að mæta Hrútunum frá Derby.

„Þetta er risastórt lið. Maður heyrir það alveg þegar maður ræðir við fólkið í bænum,“ sagði Sigurður.

Hann á von á því að Skagamenn fjölmenni í Víkina í kvöld.

„Ég hef heyrt að það verði mjög góð mæting. Ég held að allir í bænum séu mjög spenntir fyrir þessum leik,“ sagði Sigurður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×