Vinna er hafin við níundu Rocky-myndina og viðræður eru hafnar um framleiðslu þáttaraðar sem greini frá uppruna Rocky í bandarísku borginni Fíladelfíu.
Sylvester Stallone greinir frá þessu í viðtali við Variety og segir að myndin fjalli um samband hnefaleikameistarans gamla og ungs bardagakappa sem hefur stöðu ólöglegs innflytjanda í Bandaríkjunum.
Framleiðandinn Irwin Winkler segir þá viðræður hafnar við Stallone um að hann skrifi handritið og leiki titilhlutverkið í myndinni. Þá segir Stallone að ef það verði af þáttaröðinni sé hún hugsuð inn á streymisveitur.
Stallone sagði líka að Rocky sé hans arfleifð. „Hann er eins og bróðir minn. Í gegnum Rocky get ég sagt ýmislegt sem ég yrði gagnrýndur fyrir, kallaður kjánalegur og of tilfinningaríkur. En það sem Rocky segir skiptir í raun máli. Hann getur sagt hluti sem aðrar persónur mínar geta ekki sagt, sagði Stallone og bætti við að hann sæi nokkur líkindi milli Rocky og hans sjálfs.
