Sylvester Stallone er mættur aftur sem John Rambo en þetta verður í fimmta sinn sem hann bregður sér í hlutverkið. Fyrsta Rambo-myndin kom út fyrir tæpum fjórum áratugum en í nýjustu myndinni stendur hann andspænis djöflum úr fortíð hans.
Fyrsta Rambo-myndin hét First Blood en sú fimmta hefur fengið heitið Last Blood og er sögð sú síðasta í þessari kvikmyndaseríu.
Söguþráður myndarinnar er á þá leið að Rambo hefur sest í helgan stein á búgarði fjölskyldu sinnar í Arizona eftir að hafa varið áratugum á erlendri grund. Hann ákveður að slást í för með blaðamanni til að hafa upp á og bjarga hópi stúlkna sem er í haldi mexíkósks vændishrings. Áður en Rambo veit af er hann flæktur í framvindu sem gerir það að verkum að hann þarf að rifja upp gamla takta sem verða seint taldir fallegir.
Verður myndin frumsýnd í september næstkomandi.