Veiði

Laxinn mættur í Laxá í Kjós

Karl Lúðvíksson skrifar
Laxinn er mættur í Laxá í Kjós
Laxinn er mættur í Laxá í Kjós Mynd úr safni
Það styttist óðum í að fyrstu veiðimennirnir vaði út í árnar og reyni við fyrstu laxana og það er mikil spenna í loftinu.

Það hafa verið að berast fréttir úr Laxá í Kjós að þar hafi þegar sést í fyrstu laxana þetta sumarið en þetta er frekar snemmt fyrir Kjósina þó svo að hún sýni sýni fyrstu laxa oft snemma. Um og yfir 20. maí hafa iðullega borist fyrstu fregnir af löxum í ánni en svo er það bara spurning hvort það veit á gott að þeir séu komnir núna?

Það er alltaf erfitt að spá fyrir um komandi sumar og það er ekkert leyndarmál að sumir hafa haft ansi mikla fyrirvara á spádómum sínum þar sem laxinn sem er að ganga núna í árnar sem eins árs lax, þá erum við að tala um laxa úr ám þar sem seiðin eru þrjú ár í ánni. Ástæðan er sú að þetta eru þá seiði sem voru að klekjast út vorið 2015 eftir hrygningu úr göngunni 2014 sem var sú lélegasta frá mælingum. Það þarf engu að síður ekki að þýða að árið verði lélegt því í einhverjum seiðimælingum leit þetta ekki jafn illa út og menn óttuðust. Það er alltaf fyrst og fremst ástand sjávar sem skiptir máli og þá sérstaklega fyrstu vikurnar fyrir seiðin og á seinni tímanum í hafdvölinni er það fæðuframboðið sem hefur allt að segja.

Við getum víst ekki annað en beðið en það eru rétt tæpar þrjár vikur í að árnar opni. Norðurá, Blanda, Þverá og Kjarrá með Þjórsá sem opna fyrstar og það er nokkuð ljóst að vel verður fylgst með þeim opnunum.






×