Hvítur, hvítur dagur segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.
Tökur á myndinni fóru fram á Hornafirði, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og í Oddskarði.

Með aðalhlutverk fara Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sér um klippingu myndarinnar. Hljóðhönnuður myndarinnar er Lars Halvorsen, leikmyndahönnuður Hulda Helgadóttir og tónlist er eftir Edmund Finnis.
Með sölu og dreifingu erlendis fer New Europe Film Sales.

Tvær íslenskar myndir hafa áður tekið þátt í Critics' Week, í fyrra var þar Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson, og Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen tók þátt árið 1992; einnig hafa tvær myndir með íslenska tengingu tekið þátt, hin norsk/íslenska Vandræðamaðurinn eftir Jens Lien árið 2006; og fransk/íslenska stuttmyndin Víkingar eftir Magali Magistry árið 2013.
Critics‘ Week var stofnuð árið 1961 af samtökum franskra kvikmyndagagnrýnenda. Á meðal þekktra leikstjóra sem hafa sýnt myndir sínar í Critics’ Week eru t.a.m. Wong Kar-wai, Bernardo Bertolucci, Gaspar Noé og núverandi forseti dómnefndar í aðalkeppni Cannes, Alejandro González Iñárritu.