Sport

Forseti UFC ekki viss um að Conor muni stíga aftur inn í búrið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Conor McGregor tapaði síðast í búrinu.
Conor McGregor tapaði síðast í búrinu. vísir/getty
Írski bardagakappinn og UFC-ofurstjarnan Conor McGregor hefur ekki stigið inn í búrið síðan í október í fyrra þegar að hann var niðurlægður af Khabib Nurmagomedov og Dana White, forseti UFC, er ekki viss um að hann muni nokkurn tíma berjast aftur.

White svaraði spurningum um nokkra bardagakappa sem aðdáendur UFC vilja sjá aftur í búrinu í viðtali við UFC-sjónvarpsstöðina en þar var Conor McGregor fyrsta nafn á blað.

Þrátt fyrir að hafa tapað síðasta bardaga slær ekkert á vinsældir írska Íslandsvinarins sem verður bara ríkari með degi hverjum en hann hefur gert vel í að nýta frægð sína til að afla sér tekna.

„Frá fyrsta degi hefur Conor verið frábær viðskiptamaður. Það sem hann hefur afrekað er magnað en það væri fínt ef hann gæti haldið sér frá vandræðum,“ segir Dana White.

„Eftir því sem hann verður ríkari og frægari efast ég alltaf um að hann muni nokkurn tíma berjast aftur en það fallega við Conor er að hann hefur alltaf barist við hvern sem er. Ég veit að allir halda að ég sé mikill aðdáandi og það er rétt. Hann á það líka skilið.“

Óvíst er hvort Conor muni berjast næst, ef hann mætir í búrið yfir höfuð, í fjaðurvigt eða léttvigt eins og síðast. Max Holloway er meistari í fjaðurvigt en Khabib, sem er kominn í klandur, er meistari í léttvigtinni.

„Hlutirnir eru frekar mikið upp í loft í þyngdarflokkunum hans. Spurningin er hver er rétti bardaginn fyrir Conor. Þegar að hlutirnir fara að skýrast betur með Holloway, Dustin Poirier og Khabib er kominn aftur þá getum við fundið hvar Conor passar inn í þá mynd,“ segir Dana White.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×