Bíó og sjónvarp

Gillian Anderson mun leika Margaret Thatcher í The Crown

Stefán Árni Pálsson skrifar
Anderson leikur Thatcher í komandi þáttaröð.
Anderson leikur Thatcher í komandi þáttaröð.
Leikkonan Gillian Anderson er hvað þekktust fyrir að leika í The X-Files en hún var að landa stóru hlutverki.

Anderson mun fara með hlutverk Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, í fjórðu þáttaröðinni af The Crown.

Thatcher var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979 - 1990. Hún varð fyrsta konan til að gegna því embætti í Bretlandi. Hún varð þingmaður árið 1959 og lét af þingmennsku 1992.

Thatcher gegndi líka embætti menntamálaráðherra árið 1970. Árið 1975 bauð hún sig svo fram í leiðtogasæti breska Íhaldsflokksins gegn þáverandi leiðtoga, Edward Heath.

Undir hennar stjórn vann flokkurinn þingkosningar árið 1979, 1983 og 1987. Hún átti við heilsubrest að stríða síðustu æviár sín og lést árið 2013, þá 87 ára að aldri.

Í Netflix-þáttaröðinni The Crown er sagt frá ævi Elísabetar Englandsdrottningar og hafa fyrstu tvær þáttaraðirnar fengið mikið lof. Framundan er síðan þriðja þáttaröðin en Gillian kemur við sögu í þeirri fjórðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.