Bíó og sjónvarp

Hætta við tilnefningu Bohemian Rhapsody vegna ásakana um kynferðisbrot

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rami Malek í hlutverki Freddie Mercury í kvikmyndinni Bohemian Rhapsody. Malek var valinn besti leikari í aðalhlutverki á Golden Globe-verðlaunahátíðinni fyrr í mánuðinum.
Rami Malek í hlutverki Freddie Mercury í kvikmyndinni Bohemian Rhapsody. Malek var valinn besti leikari í aðalhlutverki á Golden Globe-verðlaunahátíðinni fyrr í mánuðinum.
Kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem fjallar um ævi og störf stórstjörnunnar Freddie Mercury og hljómsveitarinnar Queen, hefur verið fjarlægð af tilnefningarlista GLAAD-verðlaunanna, einnar helstu verðlaunahátíðar hinseginfólks, vegna ásakana um kynferðisbrot Bryan Singer, leikstjóra myndarinnar. Variety greinir frá.

Fjórir menn stigu fram í vikunni og sökuðu Singer um að hafa brotið kynferðislega gegn þeim er þeir voru á táningsaldri. Singer þvertók fyrir ásakanirnar og afskrifaði þær sem „hommahatur“ í sinn garð.

Sjá einnig: Það sem er satt og það sem er fært í stílinn í nýju Queen-myndinni



GLAAD-samtökin, bandarísk hagsmunasamtök hinseginfólks, ákváðu í kjölfarið að hætta við að tilnefna Bohemian Rhapsody sem bestu kvikmynd ársins á verðlaunahátíð samtakanna. Vísa samtökin til þess að Singer hafi notfært sér fordóma í garð samkynhneigðra til að afvegaleiða umræðu um ásakanirnar.

Þá segir í yfirlýsingu GLAAD-samtakanna að ákvörðunin hafi verið erfið, og þá sérstaklega í ljósi þess að samtökin hafi áður lýst yfir ánægju með það að kvikmyndin geri Mercury svo hátt undir höfði og fjalli um baráttu hans við HIV.

„Áhrifin sem kvikmyndin hefur haft á samfélagið eru óumdeilanleg. Við stöndum þó í þeirri trú að okkur beri skylda til að senda skýr og afdráttarlaus skilaboð til hinsegin ungmenna og allra þolenda kynferðisbrota um að GLAAD muni standa með þolendum,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum vegna málsins.

Singer hefur áður þurft að svara fyrir viðlíka ásakanir og hefur ávallt neitað því að hafa brotið á ungum piltum. Singer var nýlega ráðinn til þess að leikstýra kvikmyndinni Red Sonja en framleiðendur myndarinnar staðfestu í vikunni að hann myndi halda starfinu þrátt fyrir ásakanirnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×