Veiði

Þrjár síðsumars flugur í laxaboxið

Karl Lúðvíksson skrifar
Undertaker er veiðin síðsumars fluga
Undertaker er veiðin síðsumars fluga
Thunder and Lighting
Þá höldum við áfram að skjóta á ykkur tillögum að flugum í boxið fyrir komandi tímabil en þar sem um aragrúa veiðiflugna er að ræða eru þetta þær sem við metum nauðsynlegar.

Svo er það auðvitað persónubundið hvað hverjum finnst nauðsynlegt en þessar tillögur sem við teflum fram, þar á meðal það sem við settum inná Veiðivísi í gær, eru flugur sem eru af vel flestum veiðimönnum taldar með þeim bestu. Í gær voru það þrjár flugur til að nota fyrri helming tímabilsins en núna tökum við þrjár til að nota síðsumars og sem fyrr gerum við bara ráð fyrir því að Rauður og Svartur Frances sé þegar í boxinu.

Fyrsta flugan sem verður að nefna sem eina af bestu síðsumars flugum sem undirritaður notar þó hún sé vel veiðin allt tímabilið er Undertaker og þá allra helst á gylltum krók.  Það er eitthvað sem gerist þegar hún fer í vatnið.  Hún veiðir best í smáum stærðum og oft best í ljósaskiptunum sem mörgum finnst skrítið því ekki er hún mjög áberandi að manni finnst í hauströkkri og hvað þá ofan í ánni.  Þeir sem elska þessa flugu eiga allir sögu af augnabliki þegar Undertaker bjargaði deginum.

Fluga númer tvö verður að vera Thunder & Lightning.  Ryðrauð litavalið í fluguna hefur styrkt margann manninn í þeirri kenningu að hún veiði best á haustinn þegar laxinn fer að sýna rauðleitum litum meiri athygli en á fyrri hluta tímabilsins, sbr að sjóninn hjá laxinum breytist eftir dvöl í ferskvatni.  Undirritaður hefur á sínum árum í veiðileiðsögn alltaf prófað þessa hvenær sem er tímabilsins en það hefur engin undir minni leiðsögn fengið lax á hana fyrr en eftir miðjan ágúst og alltaf skal hún gefa best í september.

Þriðja flugan er Metalica.  Klárlega ein af þeim veiðnari sem hefur komið fram síðustu ár.  Gefur vel allt tímabilið en hörðustu haustveiðimenn og konur segja að síðsumarið sé hennar tími.  Hún fær eiginlega að fljóta með sem skyldan í boxið því, ef við komum aftur að reynslu undirritaðs, hafa fáar flugur gefið mér jafn góða veiði í lok ágúst og í september eins og Metalica, það er að segja þegar hann tekur ekki Undertaker eða Thunder & Lighting svo því sé haldið til haga.






×