Bíó og sjónvarp

Viðra þá hugmynd að sleppa kynni á Óskarnum: „Þau eru að tapa sér“

Birgir Olgeirsson skrifar
Óskarsverðlaunaakademían sögð í örvæntingafullri leit að kynni.
Óskarsverðlaunaakademían sögð í örvæntingafullri leit að kynni. Vísir/Getty
Bandaríska kvikmyndaakademían reynir nú hvað hún getur að finna nýjan kynni á komandi Óskarsverðlaunahátíð eftir að grínistinn Kevin Hart sagði sig frá starfinu. Var Hart krafinn um að biðjast afsökunar og sýna einlæga iðrun vegna brandara sem hann hafði látið falla fyrir nokkrum árum sem þóttu meiðandi í garð hinsegin fólks.

Hart sendi frá sér yfirlýsingu síðastliðinn fimmtudag þar sem hann minntist á þessa brandara og sagðist hafa tekið miklum þroska frá því hann lét þá falla, en baðst ekki afsökunar. Hann ákvað í kjölfarið að hafna alfarið boði kvikmyndaakademíunnar um að kynna Óskarsverðlaunahátíðina.

„Þau eru að tapa sér,“ hefur bandaríski vefurinn Variety eftir umboðsmanni sem hefur mikil ítök í bransanum vestanhafs. Hann sagði þetta þegar hann var spurður hvernig leit akademíunnar gengur að nýjum kynni. Vildi hann aðeins tjá sig um málið undir nafnleynd.

Óskarsverðlaunahátíðin virðist skipta almenning minna og minna máli. Áhorfið á hátíðina hefur hrapað undanfarin ár, en í fyrra horfðu tæpar 26 milljónir manna á hátíðina, en áhorfendum fækkaði um 19 prósent á milli ára og hefur farið minnkandi á undanförnum árum.

Akademían er sögð horfa til þekktra sjónvarpsstjarna til að taka við þessu hlutverki á hátíðinni, og hafa nöfn kynna á borð við Jimmy Kimmel og Jimmy Fallon verið nefnd í því samhengi.

Þá hefur einnig verið rætt, samkvæmt heimildum Variety, að hafa engan kynni á hátíðinni. Þess í stað yrði horft til skemmtiþáttarins Saturday Night Live og reynt að fá hóp stórstjarna til að skiptast á að kynna næsta dagskrárlið.

Óskarsverðlaunin verða veitt 24. febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×