Veiði

Hættir að veiða í Skotlandi

Karl Lúðvíksson skrifar
Þeir bresku veiðimenn sem Veiðivísir hefur rætt við undanfarna daga, þar á meðal Simon Clark, hafa flestir afpantað alla sína daga í skosku ánum enda segja þeir að það sé ekki eftir neinu að slægjast þar.
Þeir bresku veiðimenn sem Veiðivísir hefur rætt við undanfarna daga, þar á meðal Simon Clark, hafa flestir afpantað alla sína daga í skosku ánum enda segja þeir að það sé ekki eftir neinu að slægjast þar.
Breskir veiðimenn segjast ekki skilja af hverju Íslendingar læri ekki af þeim mistökum sem gerð hafi verið með auknu laxeldi í Skotlandi. 

Veiðitölur ársins í Skotlandi voru nýlega gefnar út og segja sína sögu. Haustið í Tweed hefur til að mynda oft verið góður tími en í ár er það þannig að heildarveiðin af öllum svæðum í ánni, sem eru 24 talsins með 2-6 stöngum hvert, hefur ekki verið nema einn til fjórir laxar á dag. Suma daga veiðist ekkert. 

Þetta er ekki einsdæmi því sömu sögu hefur verið að segja frá svo til öllum ársvæðum þar í landi.  Frægar ár eins og Helmsdale eru ekki að skila nema 25% af því sem hefur verið meðalár og eru veiðimenn farnir að gefa upp alla von að laxveiðinni í Skotlandi verði bjargað úr þessu.

Stærð kvíaleldis á gönguslóð seiðanna þegar þau koma úr ánum hefur mikil áhrif en talið er að afföllinn vegna laxalúsar á fyrstu viku seiðanna í sjó sé allt að 50% sem sé mun meira en nokkur stofn þoli til að vera sjálfbær.  Veiðiréttarhafar og aðilar tengdir ferðaþjónustu við laxveiðimenn hafa í mörg ár barist fyrir því að eftirlit með kvíaeldi verði eflt og reglur hertar en lítið sem ekkert hefur áorkast á þessum tíma.  Afleiðingin er sú að fleiri hundruð manns með bein störf og afleidd störf tengdri þessari þjónustu eru að missa sitt lífsviðurværi.

Þeir bresku veiðimenn sem Veiðivísir hefur rætt við undanfarna daga, þeirra á meðal Simon Clark, hafa flestir afpantað alla sína daga í skosku ánum enda segja þeir að það sé ekki eftir neinu að slægjast þar. 

„Þú gætir eytt viku við Dee, Tweed eða Tay á góðum tíma og kannski fengið einn lax, ef þú ert heppinn og þá meina ég mjög heppinn sett í annan,“ sagði Simon Clark en hann hefur ásamt sínum veiðifélögum tekið ástfóstri við Ísland og hefur ákveðið að fjölga frekar dögum sínum hér en að eyða pening í það sem hann kallar náttúruskoðun með veiðistöng við skosku árnar. 

„Við aftur á móti skiljum ekki hvernig Íslendingar ætla ekki að læra af þeim mistökum sem hafa verið gerð í Skotlandi með laxeldinu.  Þetta er búið að drepa árnar þar og ef þið farið ekki varlega þá á þetta eftir að drepa árnar ykkar líka.“






×