Bíó og sjónvarp

Marvel dælir út stiklunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Captain Marvel í stuði.
Captain Marvel í stuði.
Marvel birti í gær aðra stiklu myndarinnar um Carol Danvers eða Captain Marvel, sem frumsýnd verður í mars. Þá segja fjölmiðlar ytra að stiklan fyrir næstu Avengers-mynd verði sýnd á föstudaginn. Upprunalega á að hafa staðið til að sýna stikluna fyrir Avengers 4 í dag en því hafi verið frestað vegna jarðarfarar George Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þá lítur út fyrir að fyrsta stikla Spider-Man: Far From Home verði sýnd á laugardaginn.

Byrjum þó á Captain Marvel og vörum við mildum spennuspillum hér að neðan. Sérstaklega hvað varðar Avengers Infinity War.

Í stiklunni hér að neðan má sjá að hluta til hvernig Carol Danvers varð að Captain Marvel og „ungan“ Nick Fury, þar sem myndin á að gera á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar.

Forsvarsmenn Marvel myndanna hjá Disney hafa sagt að Captain Marvel sé öflugasta ofurhetja kvikmyndaheimsins og miðað við stikluna, og þá sérstaklega enda hennar, er auðvelt að trúa því.

Avengers 4 verður frumsýnd í maí og mun sú mynd loka þriðja kafla kvikmyndasöguheims Marvel, sem hófst með útgáfu Iron Man árið 2008. Avengers Infinity War var frumsýnd í fyrra og án þess að skemma eitthvað fyrir þeim, væntanlega fáu, sem hafa ekki séð hana, þá endaði hún ekki vel fyrir hetjurnar.

Sú mynd endaði á því að Fury tók upp símboða og notaði hann til að senda Captain Marvel skilaboð. Því þykir nokkuð ljóst að hún verði í Avengers 4. Þær hetjur sem eftir eru þurfa að taka höndum saman og reyna að ná aftur þeim helmingi allra íbúa alheimsins sem Thanos myrti.

Gífurleg leynd hefur verið yfir söguþræði Avengers 4 en hún var tekin upp samhliða Infinity War og stjörnur myndanna segjast í rauninni ekki vita hvernig þetta fari allt saman. Lekar og ljósmyndir af setti gefa þó í skyn að tímaflakk muni koma að sögu.

Það er þó ekki hægt að gera ráð fyrir því að fyrsta stiklan muni svara mörgum spurningum. Eins og haldið er fram á Screen Rant er líklegast að hún verði notuð til að rifja upp hver staða kvikmyndaheimsins er í kjölfar Infinity War.

Hvernig er dauð ofurhetja markaðssett?

Það er stóra spurningin varðandi stiklu nýju Spider-Man myndarinnar sem sýna á á laugardaginn. Væntanlega. Það verður spennandi að sjá hvernig stiklan verður með tilliti til þess að Peter Parker dó í enda Infinity War. Auðvitað gerir enginn ráð fyrir því að hann muni vera dauður áfram og Far From Home verður frumsýnd á eftir Avengers 4, þannig að Spider-Man verður örugglega snúinn aftur.

Hvernig markaðssetur þú samt dauða ofurhetju án þess að skemma fyrir Avengers 4? Marvel mun væntanlega ekki sýna neitt úr myndinni sjálfri sem fjallar víst um það að Peter Parker, og þá einnig Spider-Man, fer til Evrópu að berjast við Mysterio. Það verður spennandi að sjá.


Tengdar fréttir

Fyrsta stikla Captain Marvel

Fyrsta stikla kvikmyndarinnar Captain Marvel, þa sem leikkonan Brie Larson leikur Carol Danvers (Captain Marvel) hefur verið birt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×