Íslenska liðið samanstóð af hinum mestu durtum sem sögðu bandaríska landsliðinu að fara til andskotans. Íslenska liðið niðurlægði það bandaríska í fyrsta leiknum en það bandaríska náði fram hefndum í vítakeppni í seinni leiknum.
Í apríl síðastliðnum birtist umfjöllun um myndina, sem er frá árinu 1994, þar sem vitnað var í hlaðvarpsþátt sem tileinkaður er The Mighty Ducks.
Þar sagði einn af þáttastjórnendum að þeir sem ólust upp á tíunda áratug síðustu aldar hefðu jafnan hugsað til myndarinnar þegar minnst var á Ísland.
„Ég ímyndaði mér Íslendinga sem hina mestu hrotta,“ sagði Kevin Cullen sem var einnig einn af þáttastjórnendunum.
Þessi ótrúlegi áhugi á Mighty Ducks-myndunum hefur skilað Íslendingum svörum á því hvers vegna Íslendingar urðu fyrir valinu sem óþokkar seinni myndarinnar en það kom til vegna vinskapar Maríu Ellingsen við Jordan Kerner, sem er einn af framleiðendum myndarinnar, en María fór með hlutverk í myndinni.

Jordan Kerner vildi hins vegar að þriðja myndin myndi gerast tveimur árum eftir friðarleika ungmenna, þar sem bandaríska liðið hafði að lokum betur gegn því íslenska.
Þar áttu liðin að mætast aftur og bandaríska liðið að hafa sigur. Það sem bandaríska liðið átti hins vegar að komast að í þriðju myndinni að íslensku leikmennirnir voru í raun og veru góðir inn við beinið.
Áttu íslensku leikmennirnir meðal annars að koma bandarískum leikmanni til varnar sem hafði orðið fyrir kynþáttaníð af hálfu nýju óþokkanna, búlgarska landsliðsins, sem áttu að vera mun verri en íslenska liðið í framkomu.
Myndverið var hins vegar ekki hrifið af þessari hugmynd og vildi frekar mynd sem gerðist í Bandaríkjunum.
Kerner sagði frá því að þegar D2 var frumsýnd í Reykjavík reyndi hann að útskýra fyrir Íslendingum hvers vegna þessi friðsæla þjóð hefði verið valin sem óþokki myndarinnar.
Hann sagðist hafa tjáð frumsýningargestum að Íslendingar hefðu orðið fyrir valinu af því þeir væru sterkt og yndislegt fólk og að framleiðendurnir myndarinnar voru vissir um að Íslendingar gætu tekið þessu.