Veiði

86 sm maríulax kveikti á veiðibakteríunni

Karl Lúðvíksson skrifar
Hugrún tekst hér á við 86 sm hrygnu sem var maríulaxinn hennar
Hugrún tekst hér á við 86 sm hrygnu sem var maríulaxinn hennar Mynd: FBH
Konum fjölgar sífellt í stangveiði á Íslandi og sífellt algengara er að heilu hollin í ánum séu skipuð konum sem eru mislangt komnar í veiðidellunni.

Hugrún Halldórsdóttir fjölmiðlakona er ein af þeim sem hefur verið að tengja sig aftur við stangveiði og á síðustu dögum veiðitímabilsins fór hún í eftirminnilega veiðiferð með vinkonu sinni þar sem markmiðið var að ná í maríulaxinn.

Undirritaður ber víst nokkra ábyrgð í því máli að koma Hugrúnu í vöðlur og út í á en þannig er mál með vexti að samhliða skrifum á veiðifréttum hef ég undanfarin sumur verið með vikulega umfjöllun um veiði í þættinum "Í bítið" á Bylgjunni.  Hugrún hefur komið þar inn á sumrin í afleysingjar og þegar við höfum talað saman í þessum viðtölum þá hefur svolítið skinið í gegn að Hugrún þekkti ekki mikið til í laxveiði en það var nokkuð ljóst að áhuginn var til staðar.

Það var því lítið annað að gera en að koma henni í veiði og láta hana taka maríulaxinn svona til að festa hana í sportinu til frambúðar.  Með dyggri aðstoð Evu Bjargar Sigurðardóttur og eiginmanns hennar Finns Björns Harðarsonar sem eru meðal leigutaka í Kálfá var Hugrúnu og vinkonu hennar "Söruh Lowe" boðið í einn dag í veiði.

"Við Sarah kynntumst í gönguferð við landamæri Suður Afríku og Lesotho og okkur varð strax vel til vina.  Sarah hefur haft einlægan Íslandsáhuga í langan tíma og var búin að safna sér fyrir ferð hingað svo eftir að okkar kynni hófust þá var bara enn ríkari ástæða fyrir hana að koma til Íslands" segir Hugrún.  "Þegar okkur stóð til boða að kíkja í veiði þá var ekki hægt að slá hendinni á móti því".

Þær voru gallaðar upp í Orvis veiðifatnað af Vesturröst og stangir og annað fengu þær hjá Evu og Finn ásamt því að Eva Björg leiðbeindi þeim við ána.  "Ég hélt að öll veiði væri bara yfir sumartímann þegar veðrið er best en það er víst ekki þannig, það var bæði rok og skítakuldi en við vorum svo vel búnar að við fundum ekkert fyrir veðrinu" segir Hugrún.  "Þetta gekk heldur brösulega fyrst vegna roks en svo kom þetta smá saman.  Finnur hjálpaði með að ná tökum á köstunum og ég fékk að landa einum laxi sem hann setti í svona til að fá alla vega smá tilfinningu fyrir því og það var mjög gaman.  Það var þó miklu skemmtilegra þegar ég loksins gat kastað sjálf og setti í ansi vænan lax" segir Hugrún með brosi.

Laxinn sem Hugrún landaði var 86 sm hrygna og er maríulaxinn hennar.  Hugrún veiddi sem barn með föður sínum og fór með honum í marga veiðitúra í vötn landsins þar sem hún veiddi oft silung en lax hafði hún ekki veitt áður.  "Þetta var alveg ótrúlega gaman og það er svo magnað þegar það er verið að þreyta laxinn að maður hefur ekki hugmynd um hvað hann er stór en þegar hann fór að stökkva þá fór ég að sjá að þetta var ekki smálax.  Mér finnst eiginlega mesta spennan við að þreyta laxinn einmitt að sjá hann stökkva og taka spretti en það er líklega það sem veiðimenn og veiðikonur eru að sækjast eftir, spennan við veiðina" segir Hugrún og það virðist nokkuð ljóst að það hefur verið kveikt á veiðibakteríunni aftur.

"Klárlega er veiðibakterían komin aftur, það var svo gaman að við Sarah fengum báðar maríulaxa og það var alveg ómetanlegt að fá svona góða kennslu og leiðsögn við bakkann, þarna skipti það bara sköpum.  Ég er nú þegar farin að tala við vinkonur mínar sem eru annað hvort með einhvern áhuga eða þá nokkuð vanar um að skella okkur í veiðitúra á næsta sumri og ég bíð bara spennt eftir því að geta kastað flugu fyrir lax aftur" segir Hugrún brosandi.  Það skal tekið fram að báðir maríulaxarnir fengu að fara aftur í ána eftir góða baráttu en Hugrún getur engu að síður alveg hugsað sér að hirða einn og einn lax því það er fátt eins gott og að grilla lax svo ekki sé talað um að geta boðið vinum í mat þar sem eigin fengur er á borðum.  Við eigum klárlega eftir að fá fleiri veiðisögur af Hugrúnu Halldórsdóttur næsta sumar.












×