Sport

Ökuréttindin tekin af Conor í hálft ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Conor yfirgefur hér búrið eftir bardagann á móti Khabib.
Conor yfirgefur hér búrið eftir bardagann á móti Khabib. vísir/getty
Írski baradagakappinn og Íslandsvinurinn Conor McGregor þarf að fá far með vinum og vandamönnum til að koma sér á milli staða næsta hálfa árið því búið er að taka ökuréttindin af honum í sex mánuði. BBC greinir frá.

Conor viðurkenndi fyrir rétti á Írlandi að hafa stigið aðeins of fast á bensíngjöfina nálægt bænum Kill í október í fyrra. Hann var tekinn á 154 kílómetra hraða á Range Rover-bifreið sinni  þar sem hraðast mátti aka á 100 kílómetra hraða á klukkustund.

Hann bað dómarann við héraðsdómstigið í Dyflinni afsökunar en Conor var einnig sektaður um 1.000 evrur. Hann var líklega með þá upphæð í veskinu.

Dagarnir hafa verið betri hjá Conor sem var tekinn í bakaríið í síðasta bardaga sínum í UFC en hann tapaði þá fyrir Rússanum Khabib Nurmagomedov.

Eftir bardagann urðu uppi mikil læti þar sem að hann var kýldur tvívegis af vinum Khabibs en fyrr á árinu var hann svo einnig fastagestur í réttarsal í New York þar sem hann slapp við fangelsisdóm eftir að hafa tryllst og kastað trillu í rúðu á rútu.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×