Bíó og sjónvarp

Lof mér að falla valin á Kvikmyndahátíðina í Toronto

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lof mér að falla fer í sýningar hér á landi 7. sept.
Lof mér að falla fer í sýningar hér á landi 7. sept.
Kvikmyndin Lof mér að falla hefur verið valin á Kvikmyndahátíðina í Toronto sem fram fer 6.-16. september en hún verður frumsýnd hér á landi 7. september. 

Myndin segir frá hinni 15 ára gömlu Magneu en líf hennar umturnast þegar hún kynnist hinni átján ára gömlu Stellu. Magnea laðast að hispurslausu lífi Stellu og þróar Magnea sterkar tilfinningar til hennar sem Stella notfærir sér til eigin hagsbóta. Stella leiðir Magneu inn í heim fíkniefna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þær báðar. 12 árum síðar liggja leiðir þeirra óvænt saman og verður uppgjör á milli þeirra óumflýjanlegt.

Leikstjóri myndarinnar er Baldvin Z en hann skrifar einnig handrit myndarinnar ásamt Birgi Erni Steinarssyni. Þeir eiga að baki afar giftusamlegt samstarf þegar þeir skrifuðu saman handrit myndarinnar Vonarstrætis, sem Baldvin Z leikstýrði, sem sópaði til sín tólf verðlaunum á Edduverðlaunahátíðinni árið 2015 en tæplega 48 þúsund manns sáu þá mynd í kvikmyndahúsum hér á landi.

Með aðalhlutverk í Lof mér að falla eru leikkonurnar Elín Sif Halldórsdóttir og Eyrún Björk Jakobsdóttir en leikarinn Þorsteinn Bachman fer einnig með stórt hlutverk. Í myndinni fara einnig með hlutverk Sturla Atlason, Edda Björgvinsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Halldór Halldórsson.

Framleiðendur myndarinnar eru þeir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson en meðframleiðendur eru Markus Selin og Jukka Helle.


Tengdar fréttir

Ekkert meira gefandi en að leika

Sólveig Arnarsdóttir flýgur milli Íslands og Þýskalands til að sinna leiklistinni. Hún segist ekki byggja sjálfsmynd sína á frama sínum sem leikkonu heldur horfir hún víðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×