Veiði

165 laxar komnir af svæði 1-2 í Stóru Laxá

Karl Lúðvíksson skrifar
Það er misjafn tíminn sem er bestur í laxveiðiánum en sumar árnar eiga það til að taka ansi góða spretti þegar líður á tímabilið.

Ein af þessum ám er Stóra Laxá í Hreppum en það er orðið ansi vel þekkt að þegar fyrstu haustrigningar demda sér í ána og hún tekur að hækka eftir t.d. vatnslítil sumur þá getur haustveiðin í henni verið ævintýraleg.  Dæmi eru um að fjórar stangir hafi tekið 100 laxa á tveimur dögum og að í þeim afla hafi um helmingur verið tveggja ára lax.

Stóra Laxá er sein til og það er kannski ekki furða því hún er langt inní landi og laxinn þarf að fara ansi langa leið í hana.  Þrátt fyrir að hún sé af mörgum kölluð dæmigerð síðsumarsá er veiðin í henni búin að vera ágæt á svæðum I-II en þar eru komnir 165 laxar á land.  Svæði III sem er lang rólegasta svæðið hefur gefið aðeins 12 laxa og svæði IV hefur gefið 44 laxa.  Það skal þó ekki skilja þessar tölur öðruvísi en svo að um byrjun sé að ræða því besti tíminn er framundan í henni.






×