Guðbjartur Finnbjörnsson, tónleikahaldari hjá Tónleikum, segir að Imogen Heap hafi lengi haft áhuga á því að koma til íslands. Hann segir að umboðsmenn hennar hefðu haft samband við sig varðandi mögulegt tónleikahald á Íslandi.
„Það er sjaldan sem aðilar í útlöndum hafa samband við litla tónleikahaldara á litla Íslandi. Það eru venjulega við sem erum að væla í þeim en þeir höfðu samband við mig,“ segir Guðbjartur glaður í bragði.
Imogen Heap og Guy Sigsworth gáfu út plötuna Details árið 2002 en ákváðu að skilja leiðir ári síðar í þeim tilgangi að hlúa að sjálfstæðri tónlistarsköpun sinni. Ákvörðunin var tekin í mikilli vinsemd.
Það var síðan í nóvember 2017 sem tvíeykið tilkynnti að Heap og Sigsworth hygðust koma saman á ný og í framhaldi af því var ákveðið að þau færu saman á tónleikaferðalag um heiminn.
Imogen Heap hefur tvívegis hlotið Grammy-verðlaunin fyrir tónlist sína.