Veiði

Veiðisaga úr Úlfljótsvatni

Karl Lúðvíksson skrifar
Stærðar urriði sem Atli Þór veiddi í Úlfljótsvatni.
Stærðar urriði sem Atli Þór veiddi í Úlfljótsvatni.
Úlfljótsvatn getur verið mjög gjöfult og skemmtilegt en þegar veiðin er mikil í Þingvallavatni er eins og fáir kíkji í það þó það sé vel þess virði.

Atli Þór Alfreðsson kíkti í vatnið fyrir skemmstu og það er óhætt að segja að hann hafi lent í smá ævintýri en við fengum póst frá honum þar sem hann deilir með okkur veiðisögunni.

"Ég lagði við tangann sem liggur að Flatey. Ég lagði strax af stað til austurs og eftir að hafa barið vatnið nær alla leið að Ljósafossvirkjun og varla séð fisk ákvað ég að snúa til baka þar sem klukkan var að nálgast 22. Ég sá svo að annar bíll var lagður við hliðina á mér sem sagði mér að þetta hlyti að vera veiðistaður sem ég ætti að tékka á áður en ég pakkaði saman eftir daginn. Þetta var nefnilega i fyrsta sinn sem ég prófaði að veiða við Úlfljótsvatn.

Ég sá að það var töluverður straumur þarna yst á tanganum þar sem ég óð út í og ákvað ég þá að setja hvítan nobbler undir. Hann tók í fyrsta kasti og ég fann strax að þetta var enginn tittur. Hann kengbeygði stöngina alveg upp að hjóli og þannig var hún allan tímann. Ég fann að þetta var enginn fiskur fyrir 4punda taum svo ég gaf honum allt það frelsi sem hann vildi þegar hann tók rokuna út, aftur og aftur, en passaði alltaf að hafa nægilega spennu á línunni. Hann gekk töluvert á undirlínuna í rokunum og ég fann að bremsan á hjólinu þurfti að taka á öllu sínu til að bráðna ekki saman.

Allan tímann var ég með öndina í hálsinum yfir því að hann myndi slíta, annaðhvort tauminn eða fluguna eða bara einfaldlega losna, sérstaklega eftir að ég sá hversu stór hann var í fyrsta stökkinu sínu sennilega þegar rann upp fyrir honum að hann væri kominn í vandræði. Slíkur var krafturinn í óhemjuskapnum. Þessi dans tók uþb. 25 mínútur og tvær dettur í vatnið þar sem filtið á vöðluskónum var ekki að nenna að grípa í rennisleipan moldarbotninn. Eins og ég nefndi þá reyndi hann að halda sér í mikilli fjarlægð frá bakkanum og á sem mestu dýpi. Hann velti sér nokkrum sinnum til að reyna að losa sig auk þess að stökkva með miklum hamagangi. Smátt og smátt þreyttist þessi durgur og um leið jókst vonin um sigur. Ég náði að lokum á einhvern undarlegan hátt að troða honum í þennan smágerða háf og koma honum á land alveg uppgefnum. Þetta kvöld var einstaklega eftirminnilegt þar sem lygnan var alger og aðstæður fullkomnar. Takk fyrir mig Úlfljótsvatn".






×