Bíó og sjónvarp

Spá Adrift þriðja sæti á lista yfir að­sóknar­mestu myndirnar vestan­hafs

Birgir Olgeirsson skrifar
Sam Claflin og Shailene Woodley í hlutverkum sínum í Adrift.
Sam Claflin og Shailene Woodley í hlutverkum sínum í Adrift. STX Films
Nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, Adrift, er talin eiga eftir að þéna um sjö til ellefu milljónir dollara á fyrstu helgi hennar í sýningu í Bandaríkjunum. Það gera um 733 milljónir og allt að 1,1 milljarði íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í spá Variety um gengi myndarinnar.

Myndin verðu frumsýnd á morgun í 2.900 kvikmyndahúsum vestanhafs og er markhópurinn sagður ungt fólk.

Á vefnum Box Office Pro er myndin sögð geta þénað um 10 til 15 milljónir dollara. Myndin er sögð allt öðruvísi en þær myndir sem verða í sýningu vestanhafs þessa helgi. Er myndin sögð upplögð fyrir ungt fólk í leit að afþreyingu á stefnumótum og gæti því komið sterk inn á þessari helgi.

Adrift er frumsýnd á sama tíma og stórmyndirnar Solo: A Star Wars Story og Deadpool 2 eru enn fyrirferðarmiklar í kvikmyndahúsum ásamt Avengers: Infinity War.

Myndin segir frá ungri konu sem þarf að bjarga sér og unnustunum úr háska á Kyrrahafinu.STX Films
Tvær aðrar myndir verða frumsýndar vestanhafs um helgina en það eru myndirnar Action Point með Jackass-stjörnunni Johnny Knoxville, en því er spáð að hún muni þéna um fjórar til sjö milljónir dollara á frumsýningarhelginni þar sem hún verður sýnd í 2.000 kvikmyndahúsum, og myndin Upgrade en henni er spáð um þremur milljónum dollara í 1.400 sölum.

Gangi spá Box Office Pro eftir verður Adrift í þriðja sæti listans yfir aðsóknarmestu kvikmyndirnar vestanhafs, á eftir Solo og Deadpool 2 en undan Avengers: Infinity War.

Þeir sem reyna að spá fyrir gengi mynda telja að mynd eins og Adrift sé upp á náð og miskunn gagnrýnenda komin. Gott umtal muni gera myndinni gott þegar kemur að aðsókninni á þessari mynd sem er talin hafa kostað um 35 milljónir dollara í framleiðslu, eða um 3,6 milljarða íslenskra króna.

Adrift verður frumsýnd hér á landi 13. júní næstkomandi. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×