Daði setti saman föstudagsplaylista fyrir Vísi og segir listann blöndu af því sem hann hefur verið að hlusta á og „eldra uppáhalds.“ Það hafa ekki gefist mörg tækifæri til að grúska eftir nýrri tónlist en Daði er staddur í Víetnam ásamt Árnýju Fjólu, kærustu sinni.
„Maður hefur mest verið að hlusta bara á sveitina,“ segir Daði, en þau skötuhjú vinna nú vefþætti um dvöl sína í Suðaustur-Asíu og hafa gert undanfarna mánuði.
Það fer að styttast í annan endann en þau lenda á Íslandi 4. júní og Daði Freyr spilar á Húrra þann 15. júní. Sumarið hans „fer í tónleika og tónlistar- og mússíkvídjósköpun“ og stefnir hann á að gefa út stóra plötu einhvern tímann í byrjun næsta árs.
Þegar þetta er ritað eiga þau þó eftir að gera 3-4 þætti fyrir heimkomu: „Núna erum við í Hanoi í Víetnam, fljúgum héðan til Hong Kong í næstu viku og þaðan heim.“