Klúðurveisla vafin inn í kómík Sigríður Jónsdóttir skrifar 31. mars 2018 10:00 Hjörtur Jóhann og Kristín Þóra í hlutverkum sínum. Grímur Bjarnason Lítill leikhópur innan Borgarleikhússins hefur ákveðið að sviðsetja morðgátuverk í anda Agöthu Christie á Nýja sviðinu undir nafninu Morð á meðal vor. Æfingatíminn var kannski svolítið stuttur en þau ætla að láta vaða, það ætti ekki að skipta miklu máli þó að nokkrar skrúfur vanti í leikmyndina eða leikarana. Herlegheitin voru frumsýnd síðastliðinn laugardag og viðbrögðin létu ekki á sér standa þó að þau væru ekki endilega þau sem hópurinn bjóst við. Sýningin sem klikkar byrjaði sýningarskeið sitt í litlu pöbbaleikhúsi í London en er nú á sigurför um heiminn. Handritið er skrifað af alúð, nákvæmni og virðingu gagnvart glæpasöguforminu en vægðarlaust grín er gert að því sömuleiðis, sem og farsahefðunum. Í hverri senu er margt að gerast í einu enda tvö leikrit í gangi á sama tíma sem er gífurlega krefjandi fyrir leikarana. Stöðugt er spilað með væntingar áhorfanda og fimmaurabröndurunum hreinlega rignir yfir sviðið. Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og tekst vel til í heildina, þó að rannsóknarlögregluorðasúpan hjá Cecil Haversham hafi ekki hitt alveg í mark. Bergur Þór er hér í essinu sínu enda hokinn af grínreynslu. Bestu atriðin eru þó þegar hann er við það að gefast upp, enda er sýningin alls ekki að ganga upp. Bugun hans er nánast áþreifanleg og óstjórnlega fyndin. Kristín Þóra sýnir á sér nýjar hliðar í hlutverki þernunnar frú Perkins en hún á mjög bágt með að muna línurnar sínar. Tímasetningarnar hennar eru hárfínar, viðbrögðin við mistökum óborganleg og legusófatilburðirnir undir lok sýningarinnar kómískt gull.Hér má sjá lík borið út.Grímur BjarnasonHjörtur Jóhann og Hilmar sýna farsafimleika í sterkum gæðaflokki. Þeir bögglast úr bilaðri lyftu, halda uppi heilli innanhússinnréttingu í miðju símtali og þeim síðarnefnda tekst með einhverjum ótrúlegum hætti að halda jafnvægi á innanstokksmunum upp á efri hæð sviðsmyndarinnar. Katrín Halldóra fer með hlutverk sviðsstjórans sem óvænt fær aðeins stærra hlutverk í sýningunni en áætlað var. Æsingurinn verður aðeins of mikill eftir hlé en hún neglir fyrri hluta sýningarinnar þó hún hafi gleymt að negla arinhilluna fasta. Davíð Þór er að stimpla sig inn sem einn mest spennandi ungi leikari landsins. Hér sýnir hann bæði breidd og þroska í sínum leik, en ber sig einnig vel í hlutverki sem er allt annað en auðvelt. Birna Rún gerir vel sömuleiðis, sérstaklega í líkamlega gríninu og gefur sig alla í hlutverk sem tekur mjög á. Sýningunni er leikstýrt af Halldóru Geirharðsdóttur sem er svo sannarlega á heimavelli. Litlar skyggingar á sviðsetningunni svo sem að láta persónur glæpaleikritsins stöðugt tala út í sal dýpkar framsetninguna og handapati leikaranna er stýrt af öryggi. Aftur á móti verður skarkalinn svo yfirþyrmandi undir lok sýningarinnar að erfitt er að fylgjast með og hvað þá að heyra orðaskil. Leikmynd Helgu I. Stefánsdóttur er listasmíð. Ekki vegna þess að viðkvæma settið sé sérstaklega fallegt heldur einmitt vegna þess að það er mátulega ósmekklegt sem hæfir stykkinu Morð á meðal vor einkar vel. Einnig þarf lausnamiðað hugvit til að leysa allt það sem úrskeiðis fer meðan á sýningunni stendur. Búningarnir eru einnig vel valdir, þá sérstaklega rannsóknarlögreglumannsins sem er sveipaður Sherlock Holmes skikkju. Önnur tæknileg mál eru vel leyst, þá helst ofurdramatíska kúnstpásan sem leikararnir taka þegar uppljóstranir koma í ljós.Sýningin sem klikkar er flottur farsi í höndunum á sterkum leikhópi.Grímur BjarnasonLeikhópurinn er sterkur og leikstjórnin sömuleiðis, þangað til allt fer endanlega úr böndunum. Þrátt fyrir nokkra galla er Sýningin sem klikkar mjög vel skrifaður farsi með snúningi í anda Michaels Frayn og Luigi Pirandello en líka ástkæru samkomuhúsasýninganna þar sem einhverjum tekst alltaf að fara með leiklýsingar eins og texta eins og ónefnd kona á Vestfjörðum gerði. Hún tilkynnti hátt og snjallt þegar þjónustustúlkan, sem hún lék, var að fara út úr stássstofunni: „Stendur upp með bolla á bakka, hneigir sig og fer.“Niðurstaða: Flottur farsi í höndunum á sterkum leikhópi. Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Menning Mest lesið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Myndaveisla: Fríðustu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Lífið Deila um gervigreind skekur Hollywood í aðdraganda Óskarsins Bíó og sjónvarp Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Lífið Ofsafengin sjálfsrækt getur reynst stórskaðleg Lífið Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Lífið Fleiri fréttir Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Lítill leikhópur innan Borgarleikhússins hefur ákveðið að sviðsetja morðgátuverk í anda Agöthu Christie á Nýja sviðinu undir nafninu Morð á meðal vor. Æfingatíminn var kannski svolítið stuttur en þau ætla að láta vaða, það ætti ekki að skipta miklu máli þó að nokkrar skrúfur vanti í leikmyndina eða leikarana. Herlegheitin voru frumsýnd síðastliðinn laugardag og viðbrögðin létu ekki á sér standa þó að þau væru ekki endilega þau sem hópurinn bjóst við. Sýningin sem klikkar byrjaði sýningarskeið sitt í litlu pöbbaleikhúsi í London en er nú á sigurför um heiminn. Handritið er skrifað af alúð, nákvæmni og virðingu gagnvart glæpasöguforminu en vægðarlaust grín er gert að því sömuleiðis, sem og farsahefðunum. Í hverri senu er margt að gerast í einu enda tvö leikrit í gangi á sama tíma sem er gífurlega krefjandi fyrir leikarana. Stöðugt er spilað með væntingar áhorfanda og fimmaurabröndurunum hreinlega rignir yfir sviðið. Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og tekst vel til í heildina, þó að rannsóknarlögregluorðasúpan hjá Cecil Haversham hafi ekki hitt alveg í mark. Bergur Þór er hér í essinu sínu enda hokinn af grínreynslu. Bestu atriðin eru þó þegar hann er við það að gefast upp, enda er sýningin alls ekki að ganga upp. Bugun hans er nánast áþreifanleg og óstjórnlega fyndin. Kristín Þóra sýnir á sér nýjar hliðar í hlutverki þernunnar frú Perkins en hún á mjög bágt með að muna línurnar sínar. Tímasetningarnar hennar eru hárfínar, viðbrögðin við mistökum óborganleg og legusófatilburðirnir undir lok sýningarinnar kómískt gull.Hér má sjá lík borið út.Grímur BjarnasonHjörtur Jóhann og Hilmar sýna farsafimleika í sterkum gæðaflokki. Þeir bögglast úr bilaðri lyftu, halda uppi heilli innanhússinnréttingu í miðju símtali og þeim síðarnefnda tekst með einhverjum ótrúlegum hætti að halda jafnvægi á innanstokksmunum upp á efri hæð sviðsmyndarinnar. Katrín Halldóra fer með hlutverk sviðsstjórans sem óvænt fær aðeins stærra hlutverk í sýningunni en áætlað var. Æsingurinn verður aðeins of mikill eftir hlé en hún neglir fyrri hluta sýningarinnar þó hún hafi gleymt að negla arinhilluna fasta. Davíð Þór er að stimpla sig inn sem einn mest spennandi ungi leikari landsins. Hér sýnir hann bæði breidd og þroska í sínum leik, en ber sig einnig vel í hlutverki sem er allt annað en auðvelt. Birna Rún gerir vel sömuleiðis, sérstaklega í líkamlega gríninu og gefur sig alla í hlutverk sem tekur mjög á. Sýningunni er leikstýrt af Halldóru Geirharðsdóttur sem er svo sannarlega á heimavelli. Litlar skyggingar á sviðsetningunni svo sem að láta persónur glæpaleikritsins stöðugt tala út í sal dýpkar framsetninguna og handapati leikaranna er stýrt af öryggi. Aftur á móti verður skarkalinn svo yfirþyrmandi undir lok sýningarinnar að erfitt er að fylgjast með og hvað þá að heyra orðaskil. Leikmynd Helgu I. Stefánsdóttur er listasmíð. Ekki vegna þess að viðkvæma settið sé sérstaklega fallegt heldur einmitt vegna þess að það er mátulega ósmekklegt sem hæfir stykkinu Morð á meðal vor einkar vel. Einnig þarf lausnamiðað hugvit til að leysa allt það sem úrskeiðis fer meðan á sýningunni stendur. Búningarnir eru einnig vel valdir, þá sérstaklega rannsóknarlögreglumannsins sem er sveipaður Sherlock Holmes skikkju. Önnur tæknileg mál eru vel leyst, þá helst ofurdramatíska kúnstpásan sem leikararnir taka þegar uppljóstranir koma í ljós.Sýningin sem klikkar er flottur farsi í höndunum á sterkum leikhópi.Grímur BjarnasonLeikhópurinn er sterkur og leikstjórnin sömuleiðis, þangað til allt fer endanlega úr böndunum. Þrátt fyrir nokkra galla er Sýningin sem klikkar mjög vel skrifaður farsi með snúningi í anda Michaels Frayn og Luigi Pirandello en líka ástkæru samkomuhúsasýninganna þar sem einhverjum tekst alltaf að fara með leiklýsingar eins og texta eins og ónefnd kona á Vestfjörðum gerði. Hún tilkynnti hátt og snjallt þegar þjónustustúlkan, sem hún lék, var að fara út úr stássstofunni: „Stendur upp með bolla á bakka, hneigir sig og fer.“Niðurstaða: Flottur farsi í höndunum á sterkum leikhópi.
Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Menning Mest lesið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Lífið Myndaveisla: Fríðustu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Lífið Deila um gervigreind skekur Hollywood í aðdraganda Óskarsins Bíó og sjónvarp Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Lífið Ofsafengin sjálfsrækt getur reynst stórskaðleg Lífið Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Lífið Fleiri fréttir Litríkar umbúðir en lítið innihald Illa bruggaðar Guðaveigar Vínartónleika skorti léttleika: Dansararnir stálu senunni Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira