Bíó og sjónvarp

Danny Boyle staðfestir að hann sé að skrifa Bond-handrit

Birgir Olgeirsson skrifar
Leikstjórinn Danny Boyle.
Leikstjórinn Danny Boyle. Vísir/Getty
Óskarsverðlaunahafinn Danny Boyle hefur staðfest að hann sé að vinna að handriti næstu kvikmyndar um njósnarann James Bond.

Myndin verður sú tuttugasta og fimmta í röðinni en Boyle vinnur að handritinu ásamt handritshöfundinum John Hodge en sama skrifuðu þeir Trainspotting.

Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að Boyle væri að vinna að Bond-handriti en hann staðfesti það á forsýningu á nýjustu þáttaröð hans Trust í vikunni.

Á vef Deadline kemur fram að þegar þeir Boyle og Hodge skila inn handritinu þá hafi framleiðslufyrirtækið MGM um tvennt að velja. Annars vegar að notast við handrit Boyle og Hodges og fá þannig Danny Boyle sem leikstjóra myndarinnar. Ef forsvarsmenn MGM verða ekki hrifnir af hugmyndinni eiga þeir þó enn handrit Neal Purvis og Robert Wade, en þeir höfðu áður skrifað handrit Bond-myndanna Skyfall, Spectre og Casino Royale.

Ef það handrit verður fyrir valinu eru þeir með lista af leikstjórum sem þeir vilja að taki við verkinu en það eru þeir Yann Demange, Denis Villeneuve og David Mackenzie.

Boyle hefur áður unnið með Daniel Craig, sem hefur leikið Bond í undanförnum myndum. Það var þegar Boyle sá um að leikstýra opnunarhátíð Ólympíuleikanna í London árið 2012.

Áætlað er að næsta Bond-mynd veðri frumsýnd í nóvember 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×