Bíó og sjónvarp

Handritshöfundur Catwoman rífur myndina í sig vegna umræðu um ósanngjarna meðferð

Birgir Olgeirsson skrifar
Sharon Stone og Halle Berry í Catwoman.
Sharon Stone og Halle Berry í Catwoman.
Einn af handritshöfundum Catwoman, með Halle Berry í aðalhlutverki, ákvað að stíga fram í gær og rífa myndina í sig.

Ástæða þess er að Twitter-notandi hafði spurt hvers vegna Catwoman naut ekki saman stuðnings og ofurhetjumyndin Black Panther er að fá núna.

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, hafði lýst yfir ánægju með Black Panther því nú hefðu svört börn ofurhetju sem endurspeglar hver þau eru. Twitter-notandinn hafði spurt hvers vegna ekki var talað svona þegar Catwoman, með Halle Berry, var í sýningum í kvikmyndahúsum árið 2004.

Þessi útgáfa af Catwoman er almennt talin ein af verstu ofurhetjumyndum allra tíma.

John Rogers er einn af handritshöfundum Catwoman. Hann steig fram á Twitter í gær og lýsti því yfir að hann hefði komið að því að skila myndinni á hvíta tjaldið og hefði því leyfi til að svara þessum hugleiðingum Twitter-notandans.

„Ástæðan er sú að þetta var skítamynd,“ segir hann í svari sínu. Myndin hafi verið metnaðarlaust verkefni frá upphafi til enda og haft enga einustu mikilvæga tilvísun í menningu þess tíma þegar hún var gefin út.

Rogers vissi í raun hversu slæm myndin yrði áður en hún var frumsýnd. Hann segist aldrei hafa náð að klára myndina í einu áhorfi og sleppti meira segja að mæta á hana kvöldið sem hún var frumsýnd.

Catwoman er ofurhetjunafn persónunnar Selenu Kyle og muna eflaust margir eftir Michelle Pfieffer í því hlutverki í Batman Returns. Það var einmitt ástæðan fyrir því að Catwoman mátti ekki heita Selena Kyle í Halle Berry-myndinni. Réttinda mál öftruðu því og fékk persóna Halle Berry því nafnið Patience Phillips.

Rogers segist hafa verið rekinn skömmu eftir að hafa unnið að handritinu sem fékk grænt ljós frá kvikmyndaverinu til framleiðslu. Rogers segir ástæðuna fyrir brottrekstrinum hafa verið að hann kvartaði ítrekað yfir breytingum sem kvikmyndaverið gerði á handritinu.

Hann segir forsvarsmenn kvikmyndaversins ekki hafa gert sér grein fyrir því hvernig myndin átti að vera og segist á einum tímapunkti hafa bent þeim á að Halle Berry væri í raun að slást við forstjóra snyrtivörufyrirtækis, klæddan í buxnadragt, í lok myndarinnar.

Rogers segist annars ekki mega tjá sig of mikið um myndina, því samningur sem hann undirritaði banni honum það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.