Bíó og sjónvarp

Kínverjar hafa ekki áhuga á Last Jedi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kvikmyndahús í Kína eru þegar hætt að sýna Star Wars: The Last Jedi vegna þess hve illa myndinni gekk þar í landi. Frumsýningarhelgina seldust miðar fyrir 28,7 milljónir dala en aðra helgina í sýningu halaði myndin inn 2,4 milljónum. Framkvæmdastjóri kvikmyndahúsakeðju sagði Hollywoord Reporter að kvikmyndinni hefði gengið mun verr en fólk hafði búist við.



Í Bandaríkjunum hefur myndin halað inn 591 milljón dala og 1,27 milljarða dala á heimsvísu. Í Kína, sem er næst stærsti kvikmyndamarkaður heims á eftir Bandaríkjunum, endaði upphæðin undir 50 milljónum dala.

Til marks um hve slæmt það er bendir Hollywood Reporter á að kvikmyndin Valerian halaði inn 62 milljónum í Kína og Geostorm 65,6 milljónum.

Þá virðist sem að Kínverjar hafi sífellt minni áhuga á Star Wars myndum Disney. The Force Awakens halaði inn 124 milljónum dala í Kína og miðar á Rogue One seldust fyrir 69 milljónir.

Forsvarsmaður rannsóknarfyrirtækis sem gerir kannanir meðal kvikmyndahúsagesta segir að einkunnir myndanna hafi einnig farið lækkandi. Hann segir að uppbyggður áhugi á Star Wars myndunum hafi hjálpað Force Awakens. Svo hafi kínverskir leikarar í Rogue One hjálpað þeirri mynd. Ekkert slíkt hafi verið til staðar þegar kom að Last Jedi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×