Bíó og sjónvarp

Óskarslykt af Póstinum hans Spielberg

Birgir Olgeirsson skrifar
The Post segir frá umfjöllun fjölmiðla um Pentagon-skjölin á áttunda áratug siðustu aldar
The Post segir frá umfjöllun fjölmiðla um Pentagon-skjölin á áttunda áratug siðustu aldar
Það er svo sem ekki ferskasta fréttin að ný mynd eftir bandaríska leikstjórann Steven Spielberg þyki líkleg til að hreppa nokkrar tilnefningar til Óskarsverðlauna, en sú er raunin þetta árið. Um er að ræða myndina The Post sem er pólitískur spennutryllir byggður á sannsögulegum atburðum með hvorki meira né minna en Meryl Streep og Tom Hanks í aðalhlutverkum.

Myndin gerist á áttunda áratug síðustu aldar og segir frá blaðamönnum á The Washington Post og The New York Times sem birtu Pentagon-gögnin sem vörðuðu afskipti bandarískra stjórnvalda af Víetnam frá árinu 1945 til ársins 1967.

Þetta tímabil varðaði fjóra forseta Bandaríkjanna og þótti meðal annars sýna að stjórn Lyndon B. Johnson laug ekki aðeins ítrekað að almenningi heldur einnig að bandaríska þinginu.

Meryl Streep, Steven Spielberg og Tom Hanks saman á tökustað The Post. Samanlagt hafa þau unnið til átta Óskarsverðlauna.IMDB
Myndin segir frá útgefandanum Katharine Graham, leikin af Meryl Streep, sem rak The Washington Post í rúma tvo áratugi og ritstjóranum Ben Bradlee, leikinn af Tom Hanks, sem tóku þátt í því að birta Pentagon-skjölin.

Sá sem lak gögnunum er Daniel Ellsberg sem var sakaður um samsæri gegn Bandaríkjunum, njósnir og þjófnaði á eignum bandaríska ríkisins. Málarekstri gegn honum var hætt þegar þeir sem rannsökuðu Watargate-skandalinn komust að því að starfsmenn Hvíta hússins, þegar Richard Nixon var þar við völd, höfðu kallað til svokallaða „pípara“ Hvíta hússins til að sverta mannorð Ellsberg með öllum tiltækum ráðum.

Má segja að þessi mynd, The Post, sé nokkurskonar óformlegur forleikur myndarinnar All The Presidents Men frá árinu 1976 og skartaði Dustin Hoffman og Robert Redford í aðalhlutverkum. Sú mynd sagði frá blaðamönnum The Washington Post, Bob Woodward og Carl Bernstein, sem komust á snoðir um Watargate-hneykslið.


Tom Hanks og Meryl Streep í hlutverkum sínum í myndinni The Post.IMDB
The Post verður ekki frumsýnd í Bandaríkjunum fyrr en 22. desember, og er þá um að ræða „takmarkað“ dreifingu þar sem hún verður sýnd í nokkrum útvöldum kvikmyndahúsum. Hún fer svo í almennar sýningar vestanhafs í janúar.

Hún verður frumsýnd hér á landi 19. janúar.

Nokkrir gagnrýnendur hafa séð myndina og fær hún fína dóma frá The Hollywood ReporterVillage VoiceDaily Beast , The TelegraphPajiba og Vanity Fair.

Hún er metin 84 prósent fersk á vef Rotten Tomatoes þegar þetta er ritað.

Meryl Streep og Tom Hanks eru ekki einu leikararnir í þessari mynd. Í henni fara einnig með veigamikil hlutverk Sarah Paulson, Bob Odenkirk, Tracy Letts, bradley Whitford, Bruce Greenwood og Matthew Rhys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×